Fréttir frá 2015

12 6. 2015

Launakönnun RSÍ 2015 - helstu niðurstöður

rafidnadarsambandidNú eru helstu niðurstöður launakönnunar RSÍ, sem gerð var í október, tilbúnar. Hér eru þær aðgengilegar en verða á næstu dögum einnig undir liðnur "útgáfa" líkt og launakannanir eru frá fyrri árum. Launakönnunin er í stöðugri þróun en nú er í þriðja skipti spurt um atvinnugrein sem viðkomandi starfar í og hafa þær upplýsingar nýst RSÍ sem og félagsmönnum verulega vel en í upphafi árs 2014 grundvallaðist kröfugerð samninganefndar RSÍ á þeim upplýsingum enda kom afar skýrt fram hvaða hópur væri með lægstu launin. Byggingaiðnaður hefur átt undir högg að sækja á síðustu 7-8 árum en í ár eru merki um að viðsnúningur hafi orðið þar á. Annars vegar má rekja hækkun launa til bættrar stöðu almennt í byggingariðnaði en einnig höfðu kjarasamningarnir meiri áhrif á þann hóp sem eru á lægri töxtum en þeir voru færðir nær greiddu kaupi í síðustu samningalotu.

Í ár var í fyrsta skipti spurt um og birt hvert tímakaup væri hjá þeim sem starfa í því umhverfi, fá greitt fyrir hvern unnin tíma en ekki á "mánaðarlaunum". Fjöldi þeirra sem svöruðu því til að viðkomandi væri að vinna í tímavinnu var ekki mjög mikill en er þó á annað hundrað. Meðaltímakaup er um 2.338 kr.

Rétt er að taka fram að í launakönnun koma fram tvíþættar upplýsingar um laun en annarsvegar er talað um "mánaðarlaun" og síðan "heildarlaun". Mánaðarlaun eru laun fyrir dagvinnu. Heildarlaun eru eðli máls samkvæmt öll laun sem viðkomandi hafði í septembermánuði, hvort sem það er eingöngu dagvinnulaun eða dagvinnulaun auk yfirvinnu eða ýmissa annarra greiðslna.

Í ár gafst öllum félagsmönnum RSÍ kostur á að taka þátt í könnuninni en tölvupóstar voru sendir á alla þá sem eru skráðir með tölvupóstfang í félagakerfi RSÍ en í þeim tilvikum þar sem ekki er skráð tölvupóstfang þá var sendur bréfpóstur á viðkomandi. 1.787 félagsmenn af 4.232 tóku þátt í launakönnuninni eða 42% félagsmanna!

Rétt er að taka fram þegar rýnt er í launatöflur eftir aðildarfélögum RSÍ og atvinnugreinum að þegar launakönnunin var í vinnslu þá hafði ekki verið lokið við gerð allra kjarasamninga hjá RSÍ og sést það augljóslega í nokkrum atvinnugreinum eins og í heilbrigðisþjónustu, raforkuframleiðslu og flutningum, upplýsinga- og/eða afþreyingarþjónustu (að hluta til amk) og fjarskiptafyrirtækjum að hluta til.

Í fyrsta skipti eru teknar saman launaupplýsingar eftir kjördæmum landsins (póstnúmerum) eins og sjá má á glæru nr. 23.

Hvetjum við félagsmenn til þess að kynna sér þessa launakönnun og nýta sér hana til þess að staðsetja sig í launum. Sé viðkomandi langt undir meðaltali launa þá er rétt að sækja á um leiðréttingu þar á.

Launakönnunin er aðgengileg með því að smella hér.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?