Fréttir frá 2015

05 11. 2015

Þroskahjálp, Tölvumiðstöð fatlaðra og Einstök börn fengu styrk

 Banner styrkveiting

18. þing Rafiðnaðarsambands Íslands var haldið dagana 7. – 9. maí. Á þingum RSÍ er hefð fyrir því að veita fjárstyrki til góðra málefna. Að þessu sinni voru veittir þrír veglegir styrkir.


Landssamtökin Þroskahjálp fengu 500.000 kr. styrk. Félagið leggur nú lokahönd á heimildarmynd um Harald Ólafsson. Saga Halla er einstök. Hann ólst upp á Kópavogshæli og fluttist þaðan um tvítugt. Hann hefur í mörg ár verið viðloðandi rafiðnaðarbrautina í Tækniskólanum og eignast þar einstaka vini úr hópi kennara og nemenda. Þroskahjálp sótti um styrkinn til að klára myndina, en hún verður væntanlega sýnd í sjónvarpi þegar hún er tilbúin.


Tölvumiðstöð fatlaðra fékk styrk að fjárhæð 400.000 kr. Tölvumiðstöð fatlaðra býður upp á ráðgjöf, fræðslu og námskeið á sviði upplýsingatækni. Nú vinnur stofnunin að því að veita ráðgjöf og kynna tækni sem nýtist lesblindum. Ýmsar lausnir eru til en vitneskja og þekking á möguleikum tækninnar er ábótavant. Áætlað er að nota styrkféð til kynningar á þessari tækni.


Félagið Einstök börn fékk styrk að fjárhæð 400.000 kr. Markmið Einstakra barna er að styðja við bakið á fjölskyldum barna með sjaldgæfa sjúkdóma og auka lífsgæði þeirra. Félagið rekur m.a. styrktarsjóð sem fjölskyldur geta leitað í til þess að leita læknishjálpar hjá færustu sérfræðingum. Félagið er rekið af sjálfboðaliðum og fyrir styrktarfé og frjáls framlög.


Auglýst var eftir umsóknum um styrki á vefsíðu RSÍ og bárust fjölmargar. Rafiðnaðarsambandið óskar styrkþegum til hamingju með styrkina og vonar að þeir komi að góðum notum, enda um þörf afar verkefni að ræða.

 IMG8683

Á myndinni eru Kristján Þórður Sæbjarnarson, formaður RSÍ, Guðrún Helga Harðardóttir frá Einstökum börnum, Friðrik Sigurðsson frá Þroskahjálp, Sigrún Jóhannsdóttir frá TMF og Haukur Ágústsson, formaður styrkveitingarnefndar.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?