Fréttir frá 2015

05 1. 2015

1. maí 2015!

rafidnadarsambandidKæru félagar,

Gleðilegan baráttudag okkar launafólks!

Í dag er vert að renna yfir baráttusvið okkar launafólks og reyna að leggja mat á stöðu þeirrar kjarabaráttu sem við höfum staðið í á undanförnum mánuðum, árum og ekki síður áratugum. Við höfum í sameiningu gengið í gegnum súrt og sætt í okkar stéttarbaráttu. Okkur er boðið upp á eitt óstöðugasta hagkerfi sem þekkist í þróuðum vestrænum löndum. Okkur er sagt að við eigum að sætta okkur við það sem okkur er skammtað enda sé það miklu meira en nóg. Ef við ætlum okkur að taka meira til okkar þá sé ekkert annað í stöðunni en að taka það af okkur aftur eftir öðrum leiðum.

Þeir tímar sem uppi eru núna einkennast af miklum átökum á vinnumarkaði sökum þessa, einhverjum mestu átökum sem við höfum upplifað í áratugi. Réttlátar kröfur um að þjóðarkökunni sé skipt á sanngjarnan hátt valda því að atvinnurekendur vilja vart yrða á launafólk sökum þess að launafólk krefst bættrar stöðu. Með klækjabrögðum og auglýsingaherferðum fara forystumenn atvinnulífsins fram og telja almenningi trú um að það sé ekkert til skiptanna og ætli launafólk að fá meira þá verði það ekki gert nema með gengisfellingu og tekið til baka í formi hærri vaxta og aukinnar verðbólgu. Á sama tíma geta þessir sömu aðilar skammtað sér og sínum sífellt meira.

Taktleysið er gríðarlegt og það sem verra er að stuðningsmenn atvinnulífsins sitja með stjórnartaumana á Alþingi okkar landsmanna. Nú þegar launafólk sýnir afstöðu sína til þess óréttlætis sem fengið hefur að þróast hér á landi um árabil og fólk fengið miklu meira en nóg af því þá stíga riddarar atvinnulífsins fram, forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, og lýsa því yfir hversu óréttlátt það sé að launafólk geti sagt sína skoðun og beitt sér fyrir bættum kjörum!

Vakin hefur verið athygli á því að launafólk sé farið að beita sínum sterkustu hópum til þess að ná fram kröfum sínum um bætt kjör. Skoðun fjármálaráðherra er sú að launafólk eigi alls ekki að geta beitt sér fyrir bættum kjörum með því að nota sterka hópa í átökum! Launafólk eigi að vera með hendur bundnar fyrir aftan bak og bundið fyrir augun. Þannig eigi launafólk að sækja sér réttlátar kjarabætur. Í samningaviðræðum við atvinnurekendur sem hafa eitt mesta herlið lögfræðinga og hagfræðinga ásamt alþjóðlegu teymi sérfræðinga að baki sér sem eingöngu þurfa að segja NEI. Það liggur í augum uppi að forsvarsmenn ríkisstjórnar vilja alls ekki sjá bætt kjör launafólks. Það liggur í augum uppi að atvinnurekendur telja hag sínum betur borgið að halda í sinn stóra hluta þjóðarkökunnar og passa upp á að missa ekki mola af þeirri köku.

Nú stefnir sem sagt í að launafólk þurfi ekki bara að berjast fyrir bættum kjörum heldur þurfum við einnig að standa vörð um okkar vinnumarkaðsmódel sem heimilar launafólki að berjast fyrir bættum kjörum með augum opin og með hendur nokkuð óbundnar.

Okkur hefur tekist að lyfta Grettistaki síðustu 100 árin og með samstöðu og samstilltu átaki getum við bætt lífskjör okkar hér á landi til frambúðar. Við þurfum að tryggja að launafólk móti stefnu þjóðarinnar til frambúðar en ekki fjármagnseigendur sem sífellt vilja meira!

Til hamingju með 1. maí, baráttudag okkar launafólks!

FJÖLMENNUM Í KRÖFUGÖNGUR UM ALLT LAND, NÚ ER TÍMI AÐGERÐA!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?