Fréttir frá 2015

04 26. 2015

Sorgleg umræða forsvarsmanna SA

rafis bordar 1300x400 04Í umræðuþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun var sorglegt að hlusta á umræðu þeirra viðmælenda sem þar voru. Margrét Kristmannsdóttir, fyrrv. varaformaður SA, var í spjalli við Sigurjón M. Egilsson. Til umræðu var sú flókna staða sem er á vinnumarkaði um þessar mundir. Gríðarleg reiði er á meðal íslensks launafólks vegna þeirrar auknu misskiptingar sem fær að þróast áfram hér á landi. Þeir ríku verða ríkari og þeir fátækari verða fátækari.

Kallað var eftir því að verkalýðsforkólfar tækju þá forystu að móta nýja þjóðarsátt hér á landi, líkt og gert var í kringum 1990. Margrét Kristmannsdóttir sat við samningaborðið sem fulltrúar RSÍ og annarra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sitja við og þekkir því mæta vel hver umræðan hefur verið við það borð. Bent hefur verið á það óréttlæti sem okkar félagsmenn sjá kristallast í samfélaginu.

Það er ljóst að viðsemjendur okkar hafa nákvæmlega litla sem enga tengingu við það samfélag sem við búum í. Þau vilja eingöngu tryggja stöðu sína, moka undir sig á kostnað launafólks. Fulltrúar SA vilja að hinn alemnni launamaður sætti sig við að tryggja stöðugleika, móta nýja þjóðarsátt, með því einu að sætta sig við litlar sem engar launahækkanir. Stjórnendur SA vilja alls ekki taka þátt í því sjálfir enda vilja þeir éta sína köku einir.

Fulltrúar SA átta sig ekki á því að það eru fleiri aðilar í þessu samfélagi sem þurfa að leggja sín lóð á vogarskálarnar ef takast á að móta nýja þjóðarsátt! Aðildarfélög ASÍ gerðu ótrúlega stóra hluti í lok árs 2013 og upphafi 2014 með þeim kjarasamningum sem við gerðum. Á þeim tíma, reyndar með felldum kjarasamningum víða, reyndum við nákvæmlega það að móta grunn að nýrri þjóðarsátt. Sá grunnur var mölvaður niður af stjórnvöldum hér á landi sem og stjórnendum fyrirtækjanna. Sá grunnur byggði á því að allir hópar hér á landi tækju þátt í þeirri vegferð.

Fulltrúar SA standa vörð um hækkandi laun stjórnarmanna fyrirtækjanna, þær miklu öfgar sem við sjáum í launum forsvarsmanna fyrirtækjanna og það taktleysi sem þeir sýna á sama tíma og verið er að reyna að móta grunn þjóðarsáttar.

Umræða Margrétar, fyrrv. varaformanns SA, er til marks um það hversu illa fulltrúar SA skilja stöðu mála hér á landi. Hversu lengi fulltrúar SA ætla að hafa hausinn á bólakafi í sandinum veit ég ekki en ætli þeir sér ekki að fara að kíkja upp úr sandinum mjög fljótlega þá mun það væntanlega verða alltof seint. Ábyrgðin er og verður þeirra á stöðu mála hér á landi.

Það er hreint út sagt til skammar að hlusta á umræðu fulltrúa SA um að launafólk á almennum vinnumarkaði eigi að tryggja þjóðarsátt um launahækkanir stjórnenda. Það verður aldrei þjóðarsátt um aukna misskiptingu í samfélaginu!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?