Fréttir frá 2015

04 19. 2015

Kjaradeila RSÍ-SA/SART komin til Ríkissáttasemjara

rafidnadarsambandidÞann 17. apríl ákvað samninganefnd Samtaka atvinnulífsins að vísa kjaradeilu þeirra við RSÍ til Ríkissáttasemjara. Þann sama dag vísuðu þeir öðrum kjaradeilum iðnaðarmannafélaganna sem og annarra hópa innan Alþýðusambands Íslands einnig til Ríkissáttasemjara.

 

Það er því ljóst að allar kjaradeilur á almennum vinnumarkaði (almennir kjarasamningar) eru komnar á sama stað og undir stjórn Ríkissáttasemjara. Á þeim fundum sem hafa fengist með samninganefnd SA hefur verið slegið á allar góðar hugmyndir til þess að leysa kjaradeilurnar, af hálfu SA. Samninganefnd SA er föst í gömlu hjólförunum um að halda lágmarkslaunum í lægstu lægðum hjá iðnaðarmönnum þrátt fyrir að markaðslaun sem greidd eru séu töluvert hærri. Krafa iðnaðarmanna er að hækka lágmarkslaunin upp að markaðslaunum en aðgerðin kostar sáralítið. Krafan um almenna launahækkun byggir á vilja félagsmanna iðnaðarmannafélaganna og stuðlar að því að hækka dagvinnulaunin og stuðla að því að mögulegt sé að stytta vinnutímann og á sama tíma auka framleiðni. Við glímum við það að fjöldi okkar félagsmanna hefur flust af landi brott.  

Launahækkunar"merkið" hefur verið markað úti í samfélaginu og mótar grunn að kröfugerðum hinna ýmsu hópa. Það er ljóst að kjarasamningar sem gerðir hafa verið það sem af er þessu ári hafa mótað stefnu komandi samninga. Þar vísast til kjarasamninga sem Ríkið hefur gert við töluvert stóra hópa.

Hækkanir launa í stjórnum fyrirtækja hefur töluverð áhrif í kjaraviðræður. Stjórn HB Granda hefur fengið launahækkun upp á 33% og hafa forsvarsmenn borið við að laun stjórnarinnar hafi verið þau lægstu á þessum markaði og því hafi þurft að hækka launin. Stjórnendur SA hafa tekið undir þau rök. Þessi hækkun hefur í för með sér raunkostnaðaraukningu fyrir HB Granda upp á 33% vegna stjórnarinnar. Á sama tíma krefjast iðnaðarmenn leiðréttingar á töxtum sem SA hefur blásið upp í 37,5% hækkun en kostar ekki nema 3,4% umfram kröfu um almenna launahækkun iðnaðarmanna. 

Það er því ljóst að stjórn SA styður við hækkanir á launum sinna manna en hafna því algjörlega að hækka laun þeirra sem skapa verðmætin! Því er ljóst að vísun SA til Ríkissáttasemjara mun stytta tímann í að iðnaðarmenn muni hefja átök í þessari kjaradeilu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?