Fréttir frá 2015

04 7. 2015

Rangt farið með staðreyndir í deilu RSÍ við RÚV

rafidnadarsambandidVíðsvegar í fjölmiðlum í dag hefur verið vitnað í fréttatilkynningu stjórnenda Ríkisútvarpsins ohf. í tengslum við deilu RSÍ og RÚV. Þar kemur fram að samninganefnd starfsmanna RÚV hafi komið fram með nýjar kröfur sama dag og samninganefndin hafi tekið ákvörðun um að slíta viðræðum. Það er algjörlega úr lausu lofti gripið og á enga stoð í raunveruleikanum.

 

Krafa RSÍ, sem mótuð er af starfsmönnum RÚV, um að sérkjarasamningur verði gerður hefur legið fyrir lengi og hefur samninganefnd starfsmanna lagt gríðarlega vinnu í að setja saman heildstæðan kjarasamning sem tekur á réttindum og skyldum starfsmanna.

Nýjasta útspil Ríkisútvarpsins var að reyna að koma starfsmönnum yfir á svokallaðan fimmta kafla samning, sem er fyrirtækjaþáttur aðalkjarasamnings (almenna samningsins svokallaða), en það þýðir að staða starfsmanna væri mjög sambærileg við þá stöðu sem þeir búa við í dag nema að skilgreindir yrðu launataxtar sem samninganefnd starfsmanna hefur krafist í heildstæðum sérkjarasamningi.

Hins vegar vildi Ríkisútvarpið ekki fylgja aðalkjarasamningi nema að hluta til, verði samið um einhverja breytingu á launatöxtum aðalkjarasamnings þá mætti það ekki fylgja yfir í þennan fimmta kafla samning og því væri ástæðulaust fyrir starfsmenn að gera slíkan "samning". Við það að hífa starfsmenn upp að lágmarkslaunum þá fellur til einhver kostnaður við þá aðgerð og telja stjórnendur RÚV að það megi ekkert koma þessu til viðbótar í taxtahækkun. Þetta myndi þýða að ef starfsmenn hefðu samþykkt fimmta kafla samning þá hefði staða þeirra orðið lakari þegar gengið yrði frá aðalkjarasamningi, nái iðnaðarmannasamfélagið kröfum sínum eða hluta þeirra fram í yfirstandandi viðræðum.

Stjórnendur Ríkisútvarpsins reyna í fréttaumfjöllunum að afvegaleiða umræðuna og láta í ljósi vaka að samninganefnd starfsmanna hafi komið með nýtt útspil á síðustu metrum viðræðna. Þessu hafnar samninganefnd starfsmanna alfarið og köllum eftir að fá að sjá hverjar þær kröfur ættu að hafa verið.

Kröfur starfsmanna eru einfaldar og vilja þeir sérkjarasamning sem tryggir þeim réttindi til lengri tíma. Kostir sérkjarasamnings geta nýst rekstri RÚV að mörgu leyti og mótað grunn að öruggari rekstri.

Samninganefnd starfsmanna RSÍ hvetur stjórnendur RÚV til þess að fara með rétt mál ætli þeir að fara með allar samningaviðræður í gegnum fjölmiðla en telur samninganefndin æskilegra og vænlegra til árangurs að setjast að samningaborðinu í stað þess að fara með rangt mál á opinberum vettvangi.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?