Fréttir frá 2015

03 11. 2015

Staða kjaraviðræðna

Næstkomandi föstudag verður fundur með fulltrúum iðnaðarmannafélaganna og SA þar sem kröfur okkar verða lagðar fram. Iðnaðarmannafélögin hafa þegar lagt fram skýr markmið við endurnýjun kjarasamninganna og mun kröfugerðin taka mið af því.

 

Áherslur okkar eru að leiðrétta stöðu iðnaðarmanna í heild og gera störf á Íslandi samkeppnisfærari enda mikil þörf á eflingu okkar iðnaðar. Fjölmargir iðnaðarmenn hafa farið af landi brott enda nægt framboð af vinnu t.d. í Noregi og launin góð. Styttri vinnutími í Noregi og fjölskylduvænna samfélag togar í okkar félagsmenn. Nauðsynlegt er að bæta stöðu iðngreina og ná fram nægilegri fjölgun þeirra sem sækja í námið enda er fyrirsjáanlegur skortur á iðnaðarmönnum á næstu árum. Í dag má jafnvel sjá slíkan skort í nokkrum greinum.

Hvað varðar viðræður um aðra samninga þá þokast viðræður ekkert áfram vegna starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu en krafa er uppi þar að gerður verði sérkjarasamningur sem nái yfir störf félagsmanna RSÍ hjá stofnuninni. RÚV hefur alfarið hafnað því að gera sérkjarasamning þó svo að langt hafi þokast í vinnu við að samræma réttindi okkar fólks þar innandyra. Það dugir þó ekki að fara hálfa leið í þessu máli enda eina leiðin til sátta er að ganga frá heildstæðum sérkjarasamningi. Deilan er í höndum Ríkissáttasemjara en henni var vísað þangað 20. janúar síðastliðinn.

RSÍ mun hefja atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun hjá RÚV undir lok þessarar viku.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?