Fréttir frá 2015

01 21. 2015

Staða kjaraviðræðna hjá RSÍ

Logo RSÍNú styttist í að kjarasamningar renni úr gildi hjá flestum hópum á almennum vinnumarkaði og eru kjarasamningar Rafiðnaðarsambands Íslands engin undantekning þar. RSÍ hefur nú þegar vísað einni deilu til Ríkissáttasemjara sökum þess að viðræður við atvinnurekendur hafa ekki skilað árangri. Það verður að segjast eins og er að erfiðlega hefur gengið að fá atvinnurekendur að samningaborðinu til þess að ræða kröfur ef þær kosta eitthvað.

Við gerum ráð fyrir að viðræðurnar fari þó að ganga örlítið betur á næstu vikum en gera má ráð fyrir að tiltölulega stutt sé í að kjaradeilum verði vísað til Ríkissáttasemjara fari málin ekki að þokast markvisst áfram.

Samninganefndir RSÍ munu funda á næstunni þar sem farið verður yfir stöðu mála og munu þær meta nýgerða kjarasamninga sem gerðir hafa verið við Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins.

Á félagsfundum sem haldnir voru fyrir skömmu kom fram skýr vilji félagsmanna til þess að ná fram leiðréttingum launa enda hafa laun félagsmanna RSÍ almennt ekki haldið í við launaþróun ýmissa annarra hópa. Jafnframt höfum við glímt við mikinn flótta fólks úr landi sökum þess að laun ytra geta verið talsvert betri en hér heima enda er menntun rafiðnaðarmanna alþjóðleg og okkar félagsmenn eftirsóttir til starfa.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?