Fréttir frá 2015

01 19. 2015

Rafiðnaðarmenn í störfum erlendis

Norden orgÍslenskir rafiðnaðarmenn eru eftirsóttir til starfa erlendis enda hafa til dæmis íslenskir rafvirkjar alþjóðlega menntun sem nýtist þeim í starfi bæði hér á Íslandi sem og erlendis, t.d. á Norðurlöndunum. Mikið og gott samstarf á meðal Rafiðnaðarsambanda á hinum Norræna vinnumarkaði hefur skilað okkur því að menntun landanna er mjög sambærileg þó svo að menntun okkar manna er jafnvel fjölbreyttari en þar ytra.

Norskur vinnumarkaður hefur þurft á um 15.000 rafiðnaðarmönnum á ári til starfa sökum mikilla verkefna þar í landi og skorts á rafvirkjum. Þetta hefur valdið því að frá Íslandi hafa töluvert margir farið til vinnu í Noregi og ekki skemmir fyrir að laun í Noregi eru góð og hafa verið það eftir að íslenska krónan féll í Hruninu. Í mörgum tilfellum greiða vinnuveitendur ferðakostnað til og frá Íslandi sem og húsnæðiskostnað.

Árið 2013 fengu 131 íslenskir rafvirkjar staðfestingu á réttindum þeirra í Noregi hjá stofnun sem fylgist með menntun þeirra er starfa á norskum vinnumarkaði. Við bíðum upplýsinga fyrir árið 2014 en megum vænta þeirra á næstu vikum.

Ef við setjum þennan fjölda í samhengi við stöðuna hér heima þá luku 121 nemendur sveinsprófi í rafvirkjun árið 2013, árið 2012 voru þeir 114 og á nýliðnu ári luku 88 nemendur sveinsprófi í rafvirkjun. Það gefur því augaleið að flæði vinnuafls frá íslenskum vinnumarkaði til Noregs var meiri árið 2013 en sá fjöldi sem íslenskt menntakerfi skilaði af sér. Þess ber jafnframt að geta að einhver fjöldi hefur farið til starfa í Danmörku og Svíþjóð sem og annarra landa.

Tvisvar á ári eru sveinbréf afhend nýsveinum sem lokið hafa sveinsprófi í rafiðngreinum og þegar nýsveinar hafa verið spurðir um stöðu þeirra á vinnumarkaði, hvernig hafi gengið að komast í vinnu, þá hafa allir þegar verið komnir í vinnu eða að við það að hefja störf í nýrri vinnu. Töluverður áhugi nýsveina hefur einnig verið á því að komast til starfa erlendis. Atvinnurekendur í rafiðnaði hafa margítrekað líst því yfir að erfiðlega reynist að fá rafiðnaðarmenn til vinnu sökum þess að skortur er á menntuðum einstaklingum hér á landi.

Það er því augljóst að töluverður spekileki er úr landinu og hefur verið á undanförnum árum. Því er augljóst að ef við ætlum að tryggja öruggan rekstur íslensks raforkukerfis þá verður að ná okkar rafiðnaðarmönnum aftur heim. Til að svo geti orðið verður að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs með betri launum fyrir rafiðnaðarmenn.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?