Fréttir frá 2013

12 5. 2013

Stærstu bókaverslanirnar neituðu þátttöku

asi storVerðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í átta bókabúðum og verslunum víðsvegar um landið sl. mánudag. Kannað var verð á 75 bókatitlum sem eru í bókatíðindum 2013. Eymundsson, Griffill Skeifunni, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsti neytendur um verð í þeirra verslun.

Oftast var á milli fjórðungs og helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði milli verslananna. Lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus á Egilsstöðum eða á 34 titlum af 75 og hjá Forlaginu Fiskislóð á 16 titlum.

Mikill munur á vöruúrvali
Mikill munur er á vöruúrvali á milli verslana og bókabúða. Af þeim bókatitlum sem könnunin náði til voru flestir þeirra fáanlegir hjá Forlaginu Fiskislóð eða 71 af 75 og Hagkaup átti til 68, Bóksala Stúdenta 67 og A4 66. Fæstir bókatitlarnir voru til hjá Krónunni Lindum eða 25 af 75, Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði 34 titlar og Bónus 35.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bókinni Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson, sem ódýrust hjá Bónus á 4.218 kr. en dýrust hjá A4 á 6.490 kr. sem er 2.272 kr. verðmunur eða 54%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á bókinni Möltugátan eftir Jorn Lier Horst sem var ódýrust hjá A4 Skeifunni á 2.990 kr. en dýrust hjá Hagkaupum á 2.999 kr. sem gerir verðmun upp á 9 kr.

Mikill verðmunur á öllum titlum
Sem dæmi um mikinn verðmun á titlum fyrir jólin má nefna að bókin Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason. Hún var ódýrust á 2.975 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.390 kr. hjá A4, verðmunurinn eru 1.415 kr. eða 48%. Matargleði Evu eftir Evu Laufey Kjaran Hermannsdóttur var ódýrust á 3.485 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.490 kr. hjá Bóksölu Stúdenta eða 29% verðmunur. Sagan Manga með svartan vanga – sagan öll eftir Ómar Ragnarsson var ódýrust á 2.745 kr. hjá Bónus en dýrust á 3.790 kr. hjá Hagkaupum sem er 38% verðmunur. Einnig má nefna að bókin Stangveiði á Íslandi og íslensk vatnabók eftir Sölva Björn Sigurðsson var ódýrust á 21.743 kr. hjá Nettó en dýrust á 23.990 kr. hjá Forlaginu, verðmunurinn er 10%.

Sjá töflu, smellið hér.

Eymundsson, Griffill, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu neituðu þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Nettó Akureyri, Hagkaupum Holtagörðum, Bónus Egilsstöðum, Krónunni Lindum og Samkaupum Úrval Hafnarfirði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?