Fréttir frá 2013

12 3. 2013

Kjarasamningar lausir á almennum vinnumarkaði

Logo RSÍÞann 30. nóvember runnu allflestir kjarasamningar úr gildi á almennum vinnumarkaði. Rafiðnaðarsamband Íslands gerir tæplega 30 kjarasamninga við atvinnurekendur. Kjarasamningur RSÍ - SA/SART nær til um 50% félagsmanna RSÍ en síðan eru í gildi kjarasamningar við hin ýmsu fyrirtæki og greinar. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurnýjun kjarasamninganna en þrátt fyrir þá miklu vinnu hefur ekki tekist að ganga frá endurnýjuðum kjarasamningum. 

Síðastliðið vor hófu aðilar mikla vinnu við að greina kjarasamningagerð nágrannalanda okkar ásamt efnahagslegum forsendum þeirra. Má þar segja að töluverður munur er á aðstöðu aðila. Ef við horfum til Norðurlandanna þá sést greinilegur munur á verðbólgustigi þessara landa í samanburði við Ísland. Verðbólga á Íslandi er iðulega töluvert hærri en þar ytra. Stöðugleiki gjaldmiðla nágranna okkar stuðlar að lægri verðbólgu og þar af leiðandi minni þörf fyrir miklar launahækkanir. Mögulegt er að tryggja kaupmáttaraukningu með lægri nafnlaunahækkunum, enda kaupmáttur launa fundinn með því að draga verðbólgu frá launavísitölu. Sé verðbólga há, líkt og í janúar 2009 þegar ársverðbólga var 18,6%, þá þarf árshækkun launavísitölu að vera 18,7% til þess að auka kaupmátt launa um 0,1%. Það gefur því auga leið að nauðsynlegt er að halda verðbólgu í skefjum.

Í þessari samningalotu horfa aðilar fyrst og fremst til þess að ganga frá stuttum kjarasamningi að þessu sinni en það þýðir, ef sú niðurstaða næst, að minniháttar breytingar yrðu gerðar á ákvæðum kjarasamninga og launaliðurinn yrði undir. Til þess að stuðla að eðlilegri framgöngu við gerð næstu kjarasamninga þyrfti að móta skýran ramma utan um viðræðurnar með tímasettum markmiðum. 

Þá er nauðsynlegt að stjórnvöld hefji nú þegar stefnumörkun í gjaldmiðilsmálum ætli aðilar að stefna að lengri kjarasamningi að ári liðnu. Endurskoðun peningastefnunnar hlýtur að teljast nauðsynleg enda hefur reynsla undanfarins áratugs (og raunar nánast síðustu aldar) sýnt okkur að stöðugleiki krónunnar hefur verið hverfandi og orsakað háa verðbólgu. Öguð efnahagsstjórn skiptir því gríðarlega miklu máli. Takist ekki að ná tökum á gjaldmiðlinum og þar með verðbólgunni stefnir allt í skammtíma kjarasamninga næstu árin með tilheyrandi óstöðugleika á vinnumarkaði.

Gera má ráð fyrir að það verði fundað stíft næstu daga, jafnvel vikur, til þess að ljúka gerð nýrra kjarasamninga.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?