Fréttir frá 2013

11 21. 2013

Helstu niðurstöður launakönnunar 2013

CapacentHelstu niðurstöður launakönnunar eru þær að meðaltalheildarlaun rafiðnaðarmanna í september 2013 voru 557.676 kr á mánuði en þau hækkuðu um 7,8% á milli ára. Þetta eru þau laun sem greidd eru fyrir alla vinnu og því er nokkur yfirvinna innifalin í þessari upphæð, að meðaltali unnu rafiðnaðarmenn 24 klst í yfirvinnu. Ef litið er til meðaltals dagvinnulauna þá eru

þau 424.217 kr en dagvinnulaunin hækkuðu um 3,9% á milli ára og hefur kaupmáttur því haldist óbreyttur á milli ára að meðaltali.

Menntun félagsmanna RSÍ er þó mjög breytileg og getur verið allt frá grunnskólaprófi, sérhæfðri tæknimenntun, sveinspróf og háskólapróf. Á undanförnum árum hafa konur valið í meira mæli að ljúka sveinsprófi í rafiðngreinum enda eru konur mjög eftirsóttar í rafiðnaði þar sem rafiðngreinar henta konum jafnt sem körlum.

Sérstaklega áhugavert er að skoða dagvinnulaun karla og kvenna sem hafa lokið sveinsprófi eða meira námi en þar eru konur með 453.550 kr en karlar með sama nám að baki með að meðaltali 426.148 kr. En þetta gerir um 6,3% launamun kynjanna konum í hag. Er þetta þó nokkur lækkun á milli ára en árið 2012 var launamunur kynjanna 18% með þessa menntun. Það hefur sýnt sig að konur sem ljúka sveinsprófi eru afar eftirsóttar á vinnumarkaðnum sem að hluta til getur skýrt hærri laun en þar geta einnig legið fleiri ástæður að baki þessum mun, svo sem starfsaldur og hvort konur séu almennt frekar í ábyrgðarstöðum.

Ef horft er til heildarlauna sama hóps karla og kvenna, þ.e.a.s. þau sem lokið hafa sveinsprófi, þá eru karlar með hærri heildarlaun sökum þess að þeir vinna meiri yfirvinnu en konur. Heildarlaun karla voru 584.784 kr á móti 556.956 kr hjá konum.

Áberandi munur er á launum karla og kvenna sem hafa lokið iðnnámi eða minni menntun en þar eru karlar með tæplega 25% hærri laun og munar þar sennilega mest um þá starfsmenn sem vinna í upplýsingaþjónustu en sker sá hópur sig úr í launasamanburði og þar er jafnframt stór hópur kvenna við störf.

Það vekur athygli þegar mismunandi starfsgreinar eru bornar saman að í byggingariðnaði er 25% félagsmanna undir 291 þúsund á mánuði fyrir fulla dagvinnu en meðaltal sýnir laun upp á 344 þúsund.

Tölvuiðnaður skilar félagsmönnum hæstum dagvinnulaunum en stóriðja og raforkuflutningar skila hæstum heildarlaunum en er það vísbending um töluvert mikla yfirvinnu hjá þeim hópum.

Hvetjum við félagsmenn okkar til þess að kynna sér niðurstöður þessarar könnunar og bera sig við þær. Séu menn langt undir meðaltali er sóknarfæri til þess að sækja launaleiðréttingar. 

Launakönnun er að finna undir "Útgáfa" - "Launakannanir" eða með því að smella hér.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?