Fréttir frá 2013

10 25. 2013

Allt að 81% verðmunur á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu

asi storFyrsti vetrardagur er á morgun og því kominn tími til að setja vetrardekkin undir bílinn, en frá 1. nóvember er löglegt að aka um á nagladekkjum. Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 29 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. miðvikudag.  

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi) með 18´´ álfelgum (265/60R18) sem var ódýrust á 7.157 kr. hjá Bifreiðaverkstæði S.B á Ísafirði en dýrust á 12.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 5.823 kr. eða 81%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust hjá Bifreiðaverkstæði S.B. á Ísafirði á 7.157 kr., en dýrust á 11.800 kr. hjá Kaldasel verðmunurinn var 4.643 kr. eða 65%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl, minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 og 16´´ stálfelgu (175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16), sem var ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi, en dýrust á 6.950 kr. hjá Kletti, verðmunurinn var 1.960 kr. eða 39%. Fyrir 14 og 15´´álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.590 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.600 kr. eða 52%. Fyrir 16´´ álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.990 kr. eða 60%.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling fyrir jeppling (t.d. Toyota Rav) á 16´´ álfelgum (225/70R16) var ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi en dýrust á 9.780 kr. hjá N1, verðmunurinn var 3.790 kr. eða 63%. Fyrir bíl með stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 8.900 kr. hjá Kletti, verðmunurinn var 2.910 eða 49%.

12 hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra

Þegar verð fyrir fyrrgreinda þjónustu hjólbarðaverkstæða er borin saman við verðið í fyrra kemur í ljós að tólf þeirra hafa ekki hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl með 16´´ álfelgu (205/55R16) síðan í október 2012. Mesta hækkunin var hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk 19% og þar á eftir kom hækkun hjá Vöku upp á 11%, einnig hefur verðið hækkað hjá Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns og Kletti um 9%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.Smellið hér.

Max 1, Dekkjahöllin, Pústþjónusta BJB, Nesdekk, Gúmmívinnslan, Hjólbarðaþjónusta Magnúsar, Bílaverið, Bílaverkstæði Austurlands, Höldur Dekkjaverkstæði, Vélrás, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Smur, bón og dekkjaþjónustan gerðu verðlagseftirlitinu ókleift að framkvæma verðkönnun.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 29 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. FÍB, eldri borgara og staðgreiðslu, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?