Fréttir frá 2013

10 16. 2013

Kjaraviðræður hafnar

rsmerkiÍ dag var fyrsti samningafundur með Samtökum atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka haldinn. Á fundinum lagði samninganefnd RSÍ fram sína kröfugerð sem mótuð hefur verið með fjölda funda með félagsmönnum, skoðanakönnun var lögð til grundvallar og síðan fundur með trúnaðarmönnum RSÍ.

Helstu kröfur RSÍ eru þær að auka kaupmátt félagsmanna en jafnframt leggjum við mikla áherslu á að ná fram auknum ráðstöfunartekjum heimilanna. Tímalengd samnings verði í samræmi við stöðu á markaði en verulega mikil óvissa er í kortunum þessa mánuðina og ef móta á breiða sátt með lengri samningum þá er ljóst að launþegar einir geta ekki myndað slíka sátt án aðkomu atvinnurekenda, ríkis og sveitafélaga. Á meðan við fylgjumst með ýmsum hópum sækja sínar leiðréttingar hvort sem það er með launahækkunum "æðstu" stjórnenda, gjaldskrárhækkunum eða þá hækkunum á gjöldum og öðrum sköttum.

Við leitum leiða til að gera ýmsar leiðréttingar á ákvæðum kjarasamningsins sem verður félagsmönnum til hagsbóta en má þar nefna að draga úr útgjöldum sem tengjast beint störfum þeirra.

Samhljómur var á meðal aðila að óvissa er mikil og allar líkur eru á að stuttir samningar verði gerðir í þessari lotu. Skýrar línur verði lagðar vegna viðræðna á næsta ári og staðan verði metin á þeim tíma hvort mögulegt reynist að gera samninga í kjölfarið til lengri tíma en árs í senn. Þar skiptir samstaða allra aðila öllu máli. Þó mun eflaust bera nokkuð í milli hvað launaliðinn varðar.

Nú þegar fjárlagafrumvarp hefur komið fram er ljóst að ríkisstjórnin leggur til að ýmsar gjaldskrár verði hækkaðar sem nemur verðbólgu hið minnsta og því ljóst að frumvarpið kyndir undir verðbólgunni sem nauðsynlegt er að hafa til grundvallar þegar leiðréttingar launa eru rædd. Afar skýrt er í huga rafiðnaðarmanna að ríkið verður að koma að borðinu með einhverjum hætti ef við ætlum að reyna að draga úr verðbólgu enda fjölmargir þættir sem hafa áhrif á verðbólgu aðrir en launahækkanir. Hvaða stefna verður tekin í peningamálum þjóðarinnar skiptir afar miklu máli enda þekkja aðilar hvernig launahækkanir hafa verið teknar af launþegum með hárri verðbólgu. Framtíðarsýn er afar mikilvæg eigi að nást breið sátt um stöðugleika til framtíðar. Launþegar geta tekið þátt í mótun slíkrar stefnu en byrðarnar verða ekki eingöngu á baki
þeirra.

Gert er ráð fyrir að næsti samningfundur verði haldinn fyrir lok þessa mánaðar. Á þessum tíma verða gögn gerð opinber sem starfshópur hefur unnið að á undanförnum vikum og á að gefa mynd af stöðu efnahagsmála og þróunar ýmissa launahópa að undanförnu. Gögnin munu eflaust nýtast aðilum til frekari greiningarvinnu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?