Fréttir frá 2013

10 2. 2013

Stefnuræða forsætisráðherra

Kristján Þórður SnæbjarnarsonForsætisráðherra dásamaði íslensku krónuna í stefnuræðu sinni í kvöld. Sagði hann að það væri ekkert annað land sem hefur náð jafn mikilli kaupmáttaraukningu á undanförnum árum og það væri vegna krónunnar. Það væri vegna krónunnar sem staða okkur væri svo góð að samanburður við önnur lönd gefur þá mynd að staðan hér er mikið betri en í öðrum löndum.

Þá spyr ég, hversu víða féll kaupmáttur launa um tæp 14% í efnahagskreppunni í nágrannalöndum okkar?

Hversu víða féll tímakaup heillar þjóðar um rétt um 50% í evrum talið? Já eða bandarískum dal, já eða kanadískum dal, já eða norskri krónu?

Það er nefnilega svo að kaupmáttur launa okkar hrundi sökum gengisfalls krónunnar. Í dag er evran tvöfalt dýrari en hún var sumarið 2007. Sama er að segja um Bandaríkjadal og Kanadadal.

Laun íslenskra launþega féll um 50% í samanburði við aðra gjaldmiðla í hruninu og er staðan enn sú að samanburður okkar er langt frá því að vera hagstæðari.

Þetta er öll dásemdin. Eins og ágætur maður sagði: "Það er gott að eiga góðan vin [íslensku krónuna] sem hjálpar manni úr vanda. Verra er að eiga vin sem kemur manni alltaf í vanda!".

Nauðsynlegt er að við tökum stefnu að stöðugu gengi íslensku krónunnar. Krónan verður okkar gjaldmiðill næstu ár og væntanlega a.m.k. næsta áratug. Sökum þess verðum við að taka markvisst á henni og með því getum við stuðlað að stöðugleika, slík stefna hefur ekki verið sýnd. Það er launafólki ekki boðlegt að búa við þennan óstöðugleika næstu áratugina. Náum við að festa gengi hennar til þess að búa til stöðugleika? Tekur Alþingi á í efnahagsmálum og rekstri ríkissjóðs sem getur stuðlað að stöðugu gengi krónunnar? Mér heyrist að stefnan sé að launþegar einir eigi að standa sína vakt og stuðla að stöðugleika. Við það verður ekki unað. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?