Fréttir frá 2013

05 1. 2013

1. maí ræða formanns RSÍ í Borgarnesi

Logo RSÍHér má sjá ræðu Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns RSÍ, sem hann fór með í Borgarnesi 1. maí 2013. 

Góðir félagar,

Innilega til hamingju með baráttudaginn 1. maí!

Kaupmáttur - Velferð - Atvinna eru einkunnarorð dagsins. Við ætlum okkur að ná fram auknum kaupmætti launa. Við ætlum að stuðla að aukinni velferð! Við viljum öll fá atvinnu við okkar hæfi!

Eins og við þekkjum öll þá er 1. maí baráttudagur okkar launafólks, við komum saman og stöppum í okkur stálið. Við leggjum fram helstu kröfur okkar um þau málefni sem við ætlum okkur að fá leiðrétt, þetta gerum við í sameiningu. Við þurfum að standa saman til þess að ná þessum markmiðum. Það eru ekki bara einhverjir einstaklingar í þjóðfélaginu sem ná þessu fram einir og sér, það er heildin, heildin sem stendur saman að kröfum til endurbóta. Heildin, launafólk allt, berst fyrir bættum kjörum. Heildin er verkalýðshreyfingin. Forystumenn eru talsmenn heildarinnar og því þurfum við forystumenn að vita hvað launafólk vill. Forystumenn þurfa að hlusta á sitt fólk. Vissulega eru skiptar skoðanir hvað varðar hin ýmsu málefni enda geta hagsmunir verið misjafnir eins og fólk er margt.

Það getur reynst okkur erfitt að greina hvar hagsmunir liggja fyrst og fremst, ýmis gylliboð hafa hljómað í okkar eyrum og ekki síst rétt fyrir kosningar. Við höfum fengið að heyra hvernig tekið verður á skuldavanda heimilanna, hvernig lækka eigi skatta og jafnframt að auka þjónustustig hins opinbera. Við höfum fengið að heyra það að okkur eru lofuð ný og betri stjórnarskrá, okkur er lofað að fá að sjá þann samning sem við þurfum að gangast undir ef við, þjóðin, ætlum okkur að ganga í Evrópusambandið. En okkur hefur ekki verið sýnt fram á hvernig við ætlum okkur að standa undir rekstri hins opinbera án nægilegra tekna. Hvernig ætlum við okkur að lækka skatta en jafnframt standa undir skuldbindingum varðandi rekstur heilbrigðiskerfisins miðað við sama eða betra þjónustustig?


Af hverju fær þjóðin ekki það tækifæri að sjá þann samning sem við þurfum að skrifa undir ef við ætlum okkur að ganga í Evrópusambandið? Er það ekki grundvallaratriði að VIÐ fáum að meta kosti og galla þess að ganga þar inn?

Eru það alþingismenn hvers tíma sem eiga að taka þessa ákvörðun fyrir okkur? Er þjóðinni virkilega ekki treystandi til þess að taka upplýsta ákvörðun þegar niðurstaða liggur fyrir?

Við VERÐUM að fá að sjá hvaða kröfur verða gerðar til landbúnaðarins í samningunum og hvaða kröfur verða gerðar til sjávarútvegsins. Við verðum að fá að meta það sjálf hvort hag okkar sé betur borgið með öflugum gjaldmiðli sem hefur breitt bakland, gjaldmiðli sem ekki sveiflast eftir því hve slæmur rekstur hins opinbera hefur verið. Það eru ekki heimili landsins sem eiga sífellt að bera þær byrðar þegar illa árar. Heimilin nutu flest ekki góðs af hinu meinta góðæri sem gekk hér yfir á árunum fyrir Hrun! Heimili landsins höfðu ekki efni á því að fara í sífelldar sólarlandaferðir líkt og ákveðinn hópur gat leyft sér.

Okkur var talið trú um að það væri góðæri. Vissulega var krónan sterk, krónan gerði okkur kleyft að kaupa erlenda vöru á hagstæðu verði en hagur heimilanna batnaði almennt ekki í samræmi við þetta góðæri.

Heimili landsins bættu á sig skuldum, stjórnmálaflokkar heimiluðu aukna skuldsetningu til þess að heimilin gætu fengið að taka þátt í góðærinu. Á sama tíma gátu ákveðnir einstaklingar söðlað um og keypt fyrirtæki hægri vinstri, oft á tíðum mjög skuldsett. Þessir aðilar nutu góðærisins til hins ítrasta. Þessir aðilar tóku út arð fyrirtækjanna, í einhverjum örfáum tilfellum nýttu sömu aðilar arðinn til þess að greiða upp skuldir sökum þeirra fjárfestinga, EN það gerðu þeir fæstir!



Nú mun væntanleg ríkisstjórn fara í að lækka skuldir en ekki bara heimilanna sem sannanlega þurfa á því að halda, heldur ætla þeir væntanlega að lækka skuldir þeirra mest sem stóðu í slíkum fjárfestingum, skuldsettum yfirtökum sem síðan höfðu tök á að sækja sér fé í fyrirtækin. Vitandi það að auðveldast væri að fyrirtækin færu í þrot og þeir sætu eftir með fúlgur fjár í formi arðgreiðslna! Er þetta það sem þjóðfélagið vill standa undir? Væri ekki ráð að huga að hag heimilanna og taka þennan afmarkaða og dýra hóp út fyrir sviga? Viljum við greiða hærri skatta til þess að rétta þessum hópi leiðréttingar á skuldum?

Nú, þegar verið er að mynda nýja ríkisstjórn, er ekki óeðlilegt að okkur verði sýnt fram á með hvaða hætti á að standa undir þessum loforðum. Hvaðan á að taka fjármagnið í þetta? Getum við lækkað allar skuldir en jafnframt lækkað skatta? Ný ríkisstjórn verður að sýna fram á hvernig hægt er að framkvæma þetta fyrir lok sumars því þetta getur haft mikil áhrif á kjaraviðræður næsta hausts!

En það er jafnframt annar hópur í þjóðfélaginu sem á erfitt þessa dagana, það eru þeir sem minnst mega sín. Fólk sem ekki hefur tök á að fjárfesta í fasteignum sökum lágra launa. Þessi hópur er því tilneyddur til þess að leigja sér fasteignir. Á leigumarkaði sem getur vart talist lausn fyrir lágtekjufólk. Leiguverð er gríðarlega hátt á almennum leigumarkaði. Það er skiljanlegt að fjárfestar sem hugsa sér að leigja út húsnæði þurfa að hafa tekjur til að standa undir þeirri fjárfestingu. Sú leiga getur orðið hærri en afborganir á fasteignamarkaði. Því er það samfélagsins í heild að standa fyrir almennilegum húsnæðisleigumarkaði sem lágtekjufólk, stórar fjölskyldur, geta leigt húsnæði af á skynsamlegum kjörum. Þessu hefur ekki verið tekið á en nú er það nauðsynlegt.

Ágætu félagar,

Það eru spennandi en jafnframt erfiðir tímar framundan. Þann 30. nóvember falla úr gildi allflestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru þann 5. maí 2011 tóku mið af því að kaupmáttur launa ætti að aukast á þessu samningstímabili. Nauðsynlegt var að ná til baka þeirri kaupmáttarskerðingu sem við upplifðum í Hruninu, sem varð meðal annars sökum gengisfalls íslensku krónunnar.
Til þess að reyna að ná tökum á verðbólgu var nauðsynlegt að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Aukinn stöðugleiki og lág verðbólga er grundvöllur þess að kaupmáttur launa aukist.

Nú er það svo eins og þið þekkið öll, að verðbólga hefur verið allt of há á þessu tímabili. Frá 5. maí 2011 hefur verðlag hækkað um tæp 9%. Kaupmáttur launa hefur samkvæmt tölum Hagstofunnar aukist um 7,3% á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 16,7%.

Þessi kaupmáttaraukning hefur hins vegar ekki skilað sér til allra okkar félagsmanna! Þeir sem fengu krónutölu hækkun á launum hafa flestir náð fram kaupmáttaraukningu en þeir sem fengu eingöngu almennar prósentuhækkanir njóta almennt ekki aukins kaupmáttar! Við eigum enn nokkuð langt í land ef við ætlum að endurheimta fyrri kaupmátt.

Það var mat félagsmanna í síðustu endurskoðun kjarasamninganna að tryggja ætti gildi þeirra út þetta ár, fram yfir alþingiskosningar, þrátt fyrir að ljóst hafi legið fyrir að kaupmáttur myndi dragast saman á árinu. Það var ekki sökum þess að fólk væri ánægt með stöðuna, það var vegna þess að fólk taldi óráðlegt að blanda gerð kjarasamninga inn í kosningabaráttu. Það var mat manna að vænlegra væri að bíða átekta og leggja til atlögu næsta vetur.

Í komandi kjarasamningum þurfum við að takast á við þetta, hvernig getum við hækkað laun okkar fólks þannig að kaupmáttur hækki raunverulega? Náð fram nauðsynlegum leiðréttingum. Heimili landsins þurfa auknar ráðstöfunartekjur. Við þurfum að vera tilbúin fyrir aukin átök næsta haust enda munum við ekki sætta okkur við óbreytt ástand til frambúðar. Við krefjumst bættra kjara! Við krefjumst raunverulegra bættra kjara!

Nú vitum við hvaða þættir hafa hvað mest áhrif á verðbólgu á Íslandi. Flökt á gengi íslensku krónunnar veldur því að verðbólga er sífellt of há. Krónan hefur þó styrkst frá byrjun mars um 8% en á sama tíma helst verðlag enn hátt og hækkar sífellt. Af hverju lækkar ekki verðbólga þegar krónan styrkist? Hver tekur hagnaðinn til sín?

Jú það eru meðal annars kaupmenn! Kaupmenn nýta sér sveiflur krónunnar til þess eins að hækka vöruverð, um leið og krónan gefur hið minnsta eftir, jafnvel samdægurs!

Þetta eru sömu aðilar og meina verðlagseftirliti Alþýðusambands Íslands að skrá niður vöruverð og birta lista yfir þá sem hækka verðið hvað mest. Menn flykkjast saman, allir sem einn og hrópa Úlfur Úlfur til þess eins
að afvegaleiða almenning. Þeir segja „Þið skuluð ekki trúa Alþýðusambandinu“, „við hækkum ekki verðið“, „kannanir þeirra eru marklausar.“ 

Okkur er jafnvel vísað á dyr við þetta eftirlit. Hvað er verið að fela?

Grunur leikur jafnvel á því að stærstu verslanir sem hafa rafrænar verðmerkingar leiki sér að neytendum með því að hækka og lækka vöruverð margoft á dag. Mögulegt er með nýjustu tækni að breyta verði heillar verslunar á örfáum sekúndum.

Allt er þetta gert svo að við, almenningur, missum allt verðskyn og sættum okkur við þetta ástand.

Við þurfum öll að taka þátt í verðlagseftirliti ASÍ. Við eigum öll að vera á verði, deila því með félögum okkar þegar óeðlilegar hækkanir birtast. Tökum höndum saman gegn verðhækkunum og rjúfum vítahring verðbólgunnar!

Síðan má alls ekki skipta um gjaldmiðil að mati margra því krónan er svo svakalega öflug, á mjög einfaldan hátt er hægt að bæta fyrir lélega efnahagsstjórn án þess að við fáum rönd við reist. Það eru talin verðmæti í því að þið fáið ekki sömu verðmæti í hendurnar í dag og þið fenguð fyrir mánuði síðan. Við eigum að krefjast þess að til lengri tíma litið verði skipt um gjaldmiðil sem gerir okkur kleyft að búa við stöðugleika.

Það er ekki hagur launþega að lenda í sífelldum gengisfellingum. Til skemmri tíma þurfum við að finna leiðir til þess að festa gengi krónunnar og ná þannig fram stöðugleika og lágri verðbólgu. En það gera launþegar á almennum vinnumarkaði ekki einir og sér. Að slíku þurfa allir landsmenn að koma. Við þyrftum að sættast á hóflegar launahækkanir sem skila enn meiri kaupmætti.

Við krefjumst þess að nú sé tími launafólks kominn! Við viljum aukinn kaupmátt launa! Við viljum auka ráðstöfunartekjur heimilanna! Við viljum aukna velferð, standa vörð um okkar velferðarkerfi þannig að það verði aðgengilegt öllum, á sömu forsendum fyrir alla óháð tekjum.

Ágætu félagar,

Staða fjölmargra heimila er mjög erfið. Mörg heimili eru orðin mjög skuldsett, sökum óhagstæðra vaxtakjara sem er bein afleiðing hárrar verðbólgu. Vaxtastig landsins stjórnast fyrst og fremst af verðbólgu hvers tíma. Íslenska þjóðin getur ekki staðið undir þessu vaxtaokri sem við höfum þurft að sætta okkur við á undanförnum áratugum. Það eitt að losna undan verðtryggingu leysir ekki vandamálið enda er greiðslubyrði óverðtryggðra lána mjög mikil sem getur sveiflast í takt við verðbólgu.

Heimili landsins þurfa lánskjör sem þau geta staðið undir. Heimilin þurfa lán sem taka ekki öll verðbólguskot inn í vaxtakjörin. Alþýðusamband Íslands hefur kynnt tillögur þess efnis að taka upp gamalt kerfi frá frændum okkar, Dönum. Með slíku kerfi gætu heimilin mögulega komist í snertingu við mun hagstæðari vaxtakjör til langs tíma. Okkur ber að leita allra leiða til þess að leysa þetta risavaxna vandamál með raunverulegum lausnum. Niðurfelling skulda getur skipt sköpum EF við þurfum ekki að borga þá niðurfellingu í gegnum hærri skatta! En niðurfelling í dag skiptir í raun sáralitlu ef við eigum von á að fá annað verðbólguskot eða jafnvel annað hrun á næstu árum. En munum það að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis!

Við verðum öll að standa vörð um okkar eign í lífeyrissjóðum landsins enda er þetta sú eign sem við munum þurfa á að halda þegar við náum þeim aldri að fara á eftirlaun. Við eigum aldrei nokkurntímann sætta okkur við að gengið verði í sjóði launþega til þess að leysa vandamál sem til eru komin sökum lélegrar efnahagsstjórnar. Hættan á því að alþingismenn seilist enn lengra í vasa okkar eykst með hverju árinu og hverri ríkisstjórn. Við látum það ekki gerast!

Í dag fylgjumst við með því þegar félagar okkar ferðast á milli landa til að sækja atvinnu, talsverður fjöldi flytur búferlum á meðan annar hópur pendlar á milli. Það er gríðarlegt áhyggjuefni hversu stór þessi hópur er, þetta eru fyrst og fremst iðnmenntaðir einstaklingar ásamt sérfræðimenntuðum einstaklingum sem eftirsóttir eru í Noregi. Við erum að missa margt af okkar færasta fólki úr landi sem við megum alls ekki við því að missa. Það er klárt mál að ef þessi hópur hefði ekki farið þá væri atvinnuleysi hér á landi mun hærra en spekilekinn getur reynst þjóðinni dýr ef við bregðumst ekki við með réttum hætti.

Við krefjumst þess að sköpuð verði verðmæt störf sem hæfir þessum hópi sem og öðrum. Við eigum að nýta okkur nýsköpunar og tæknigeirann til þess að skapa enn meiri verðmæti í landinu. Okkur ber að viðhalda góðum störfum sem við höfum nú þegar enda er nauðsynlegt að byggja atvinnu á traustum grunni.

Stjórnvöld verða að auðvelda fyrirtækjum að stækka og dafna. En þá þarf að sjálfsögðu að tryggja að þau störf sem unnin eru hér á landi séu verðmætari en í samkeppnislöndum okkar. Við eigum að krefjast þess að þau laun sem við fáum fyrir dagvinnu dugi fyrir rekstri heimila landsins með því móti má halda áfram við að stytta vinnudag launafólks.

Réttindi okkar skipta hvað mestu máli. Við njótum þeirra réttinda að geta tekið sumarorlof. Við njótum þeirra réttindi að fá laun í veikindum. Við eigum að njóta þeirra forréttinda að vinna stuttan vinnudag og geta notið lífsins með fjölskyldum og vinum! Réttindum þarf að berjast fyrir og við þurfum að standa vörð um þau!

Við erum velferðarþjóð sem hugsar um þá sem eiga erfitt. Við styðjum við bakið á þeim sem ekki hafa atvinnu. Við þurfum að tryggja að svo verði um ókomna tíð en við megum gera mikið betur!

En góðir félagar

Kaupmáttur - Velferð - Atvinna!

Stöndum saman bætum lífskjör okkar í sameiningu. Eigið góðan dag.

Takk fyrir!

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?