Fréttir frá 2013

03 21. 2013

Nýr dómur EFTA dómstólsins – atvinnuleitandi má vera búsettur í öðru EES ríki

EFTA-logoEFTA dómstóllinn kvað í gær upp dóm sem gæti haft áhrif á íslensk lög um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt íslenskum lögum er réttur til atvinnuleysisbóta m.a. háður þeim skilyrðum að umsækjandi sé bæði búsettur og staddur á Íslandi og í virkri atvinnuleit hér á landi. Í lögunum eru þó veittar heimildir til undantekninga, en þær eru ýmsum skilyrðum háðar.
Málið sem um ræðir varðar rétt sænsks ríkisborgara til atvinnuleysisbóta í Noregi. Hann starfaði í Noregi með hléum frá 1983 og síðasta starf sem hann gegndi áður en hann varð atvinnulaus árið 2008 var í Noregi. Eftir að hann varð atvinnulaus fluttist hann alfarið til Svíþjóðar, en hann hafði dvalið meira og minna í Noregi vinnu sinnar vegna síðustu ár. Hann sótti um atvinnuleysisbætur í Noregi en honum var hafnað þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði norskra laga um atvinnuleysisbætur. Hann átti rétt á bótum í Svíþjóð, en þær voru lægri en þær norsku.
EFTA dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þegar aðildarríkjum EES séu skorður settar þegar þau ákveða skilyrði atvinnuleysisbóta. Fylgja verði reglum EES réttar, og þá fyrst og fremst varðandi frjálsa för launafólks milli landa. Með því að setja skilyrði um dvöl í landi væri réttur launþegans til bóta sem hann hefur unnið sér inn skertur og einnig frelsi launþegans til að leita sér að nýrri vinnu á EES svæðinu. Maðurinn átti því rétt á bótum í Noregi og launþegar eiga að eiga kost á því að velja að fá bætur í því landi þar sem það kemur þeim best.
Dómurinn gæti haft áhrif hér á landi þar sem reglur er varða þetta eru sambærilegar á Íslandi og í Noregi.

Dómurinn í heild sinni á ensku, smellið hér

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?