Fréttir frá 2013

03 4. 2013

Eitur eða lífshættulegur búnaður?

tenglarHaft er eftir Ingva Jónassyni, framkvæmdastjóra Háskólavalla, í Fréttablaðinu í dag að þær þvottavélar og þeir þurrkarar sem flutt hefur verið úr íbúðum af Varnarliðssvæðinu á Miðnesheði frá 2006 séu ekki eitur. Um sé að ræða venjuleg rafmagnstæki. Þar fullyrðir hann jafnframt að tækin séu ekki hættuleg enda "venjuleg" rafmagnstæki. Hann staðfestir að þessi búnaður hafi jafnvel verið nýttur í varahluti en þá hljóta þessi rafmagnstæki að vera til staðar á markaðnum sem þörf er á að laga. Er sá búnaður þá af Miðnesheiðinni?

Það er ljóst að ekki er um eitur, í eiginlegri merkingu, að ræða en þessi búnaður getur reynst stórhættulegur eftir því í hvaða umhverfi hann er notaður. Umræddur búnaður er hannaður og framleiddur fyrir amerískan markað þar sem aðrar kröfur og reglur gilda. Eðli og uppbygging ameríska og íslenska raforkukerfisins er mjög ólík en spenna og tíðni er mismunandi á þessum mörkuðum sem skiptir hvað einna mestu máli þegar rafbúnaður er notaður. Sverleiki lagna er mismunandi í löndunum sökum mismunandi spennu og þar af leiðandi getur skapast eldhætta af búnaði sem uppfyllir ekki kröfur þess kerfis sem hann er notaður við. Einangrunargildi lagna og búnaðar er mismunandi og því getur notandi verið í lífshættu. Rafmagn er vissulega ekki eitrað en það getur drepið!

Það er ekki að ástæðulausu sem kröfur til raffanga eru settar og það er ekki bara á Íslandi heldur á viðkomandi raforkumarkaði, Evrópu- eða Ameríkumarkaði. Þessar reglur eru til þess að tryggja öryggi fólks, tryggja heilsu fólks.

Það að fá raflost af raftækjum getur virst vera nokkuð skaðlaust við fyrstu sýn enda sést jafnvel ekki nema lítill brunablettur á húð en skemmdir vefir líkamans sjást ekki, skemmdir á líffærum sjást ekki, minnisleysi og aðrir þættir geta komið fram á nokkrum vikum, mánuðum eða mörgum árum seinna.

Ítrekað hefur verið fjallað um sambærileg mál er varða húsnæði og búnað á Varnarliðssvæðinu á Miðnesheiði síðan 2006. Enn í dag hafa raflagnir ekki verið endurnýjaðar í öllum þeim byggingum sem eru í notkun! Enn berast fréttir af því að notendur búi við amerísk rafkerfi og nýta íslensk raftæki með þeim hættum sem því fylgir. Með hverri mínútu styttist í að alvarlegt slys verði í þessu húsnæði eða með búnaði sem fluttur hefur verið þaðan, hver á að bera ábyrgðina af því? Það getur vel verið að alvarlegt slys hafi orðið af því nú þegar án þess að það hafi verið tilkynnt sökum þess að ólöglegur búnaður er tengdur slíku slysi.

Rafiðnaðarsamband Íslands krefst þess að öryggi neytenda sé tryggt að öllu leyti og aðilar sem hafa umsjón með þessum húsum sanni förgun á hverju einasta raftæki sem fylgdi húsnæðinu nú þegar. Takist það ekki ættu hlutaðeigandi eftirlitsaðilar að bregðast við nú þegar. Jafnframt á að yfirfara allt það húsnæði sem er á svæðinu og loka því sé ekki búið að endurnýja allar raflagnir nú þegar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?