Fréttir frá 2013

02 26. 2013

Pistill formanns

kristjanPistill formanns 

Í kjölfar þess að niðurstaða náðist við endurskoðun kjarasamninganna sem tryggði okkar félagsmönnum umsamda launahækkun upp á 3,25%, þá viljum við þakka félagsmönnum fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í skoðanakönnun sem send var út í kringum áramótin. Niðurstaðan var skýr en meirihluti vildi leita allra leiða til þess að tryggja gildi kjarasamninganna. Jafnframt fengum við innsýn á hvaða stefnu Rafiðnaðarsambandið á að taka í komandi kjarasamningum. Fjölmargir gagnlegir punktar komu út úr þessari skoðanakönnun, bæði hvað RSÍ getur gert betur en jafnframt hvað brennur á mönnum.

Þess ber þó að geta að send verður út skoðanakönnun á næstu mánuðum þar sem skerpt verður á áherslum okkar félagsmanna fyrir gerð næstu kjarasamninga. Við hvetjum félagsmenn til þess að taka virkan þátt í þeim skoðanakönnunum sem sendar eru út enda skiptir vilji félagsmanna öllu máli.

Rétt er að benda félagsmönnum á að fylgjast vel með launaseðlum um næstu mánaðamót en öll laun eiga að hækka um 3,25% frá síðustu mánaðamótum og kemur sú hækkun til útgreiðslu um þessi mánaðarmót. Þeir aðilar sem taka laun samkvæmt ákveðnum lágmarkstöxtum geta jafnframt átt von á að fá krónutöluhækkun til samræmis við kjarasamningana sem undirritaðir voru 5. maí 2011.


Nokkrar nýjungar eru komnar á heimasíðu RSÍ en fyrst má þar nefna að sett hefur verið upp skráningarform þar sem félagsmenn geta komið ábendingum til skrifstofu eða stjórnar RSÍ. Jafnframt er komið skráningarform þar sem félagsmenn/vinnustaðir geta óskað eftir því að formaður og starfsmenn RSÍ mæti á fund á viðkomandi vinnustað og finna aðilar sameiginlegan tíma sem hentar báðum aðilum í samráði við fyrirtækið. Síðast en ekki síst er komið umsóknareyðublað þar sem nýjir félagsmenn skrá niður upplýsingar um sig þegar óskað er eftir inngöngu í aðildarfélag RSÍ.

Allt er þetta gert til þess að auka upplýsingaflæði á milli félagsmanna og stjórnenda RSÍ. Því hvetjum við ykkur til þess að nýta heimasíðu okkar til að koma upplýsingum til okkar en jafnframt að kynna sér þá styrki sem RSÍ og aðildarfélög bjóða félagsmönnum upp á. Á síðunni birtast viðburðir sem eru á næstunni og því nauðsynlegt að fylgjast vel með. Jafnframt getið þið "Like-að" Rafiðnaðarsamband Íslands á Facebook en þá birtast nýjar fréttir af heimasíðunni á tímalínunni.


Kristján Þórður Snæbjarnarson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?