Fréttir frá 2013

01 22. 2013

Búferlaflutningar og spekileki

Norden orgUndanfarin ár höfum við orðið vitni að því að gríðarlegur fjöldi rafiðnaðarmanna hefur flutt búferlum til nágrannalanda okkar. Mestur fjöldi hefur farið til Noregs enda er staða norsks vinnumarkaðar með þeim hætti að mikill skortur er á rafiðnaðarmönnum.Norðmenn þurfa um 15.000 rafiðnaðarmenn á ári til þess eins að viðhalda núverandi kerfum. En af hverju fara menn erlendis?

Staðreyndin er sú að rafiðnaðarmenn hafa gríðarlega góða menntun, þekking okkar fólks er með þeim hætti að oft á tíðum eru þeir fengnir til þess að leiðbeina norskum rafiðnaðarmönnum. Okkar fólk getur leyst öll þau verkefni sem þeim eru falin. Víðtæk reynsla skilar sér einmitt þar. En það er samt sem áður eitt grundvallar atriði sem menn horfa hvað mest í og það eru að sjálfsögðu launin. Í Noregi eru meðallaun rafiðnaðarmanns 230 - 250 norskar krónur á tímann. Þetta gerir 4.830 til 5.250 krónur á tímann í íslenskum krónum (sveiflast þó eftir stöðu ISK). Ef við horfum til olíuiðnaðarins í Noregi þá getum við verið að tala um hærra tímakaup og jafnvel önnur hlunnindi eins og húsnæði og fæði.

Á sama tíma eru meðallaun félagsmanna RSÍ með sveinspróf um 2.400 kr. En stórir hópar eru þó á lágmarkslaunum sveins eða allt niður í um 1.700 krónur á tímann í dagvinnu séu menn með 5 ára sveinsbréf og meistararéttindi.

Ætlum við sem samfélag að missa allt okkar hæfileika fólk úr landi sökum lágra launa? Hvernig í ósköpunum ætlum við að halda raforkukerfi landsins gangandi ef rafiðnaðarmenn flýja land í stórum hópum? Hvernig ætlum við að halda stóriðjufyrirtækjum gangandi ef okkur fer að skorta rafiðnaðarmenn? Hvernig ætlum við að halda heilbrigðisþjónustu gangandi ef við missum þá þekkingu úr landi sökum ósamkeppnishæfra launa? Hvernig ætlum við að halda fjarskiptakerfum gangandi ef við höfum ekki fólk með þá þekkingu? Hvernig ætlum við að reka flugvelli landsins ef skortur er á rafiðnaðarmönnum?

Við þurfum ekki að líta lengra aftur en til jóla og áramóta þar sem rafiðnaðarmenn unnu dag og nótt við það að koma rafmagni á fjölda bæja og heilu sveitirnar. Við tökum raforkunni sem sjálfsögðum hlut eða höfum að minnsta kosti gert það undanfarna tvo áratugi eða þar um bil. Við þurfum að geta staðið undir grunnstoðum íslensks samfélags með þeirri dýrmætu þekkingu og reynslu sem við höfum fjárfest í með íslensku skólakerfi. Við eigum að vera þjóðfélag sem hefur þekkinguna til þess að búa til nýja hluti.

Við þurfum að búa til hagkerfi þar sem það er fólkið í landinu sem skiptir mestu máli, afkoma fyrirtækja skiptir að sjálfsögðu miklu máli til þess að geta stuðlað að góðum launum í stöðugu hagkerfi en það þurfa þá allir að sitja við sama borð. Það er vonlaust fyrir samfélag að standa undir fyrirtækjum sem endurnýja kennitölur reglulega og senda kostnaðinn á ríkiskassann sem við, fólkið í landinu, þurfum að greiða fjármagnið í.

Það er löngu kominn tími til þess að leiðrétta kjör rafiðnaðarmanna enda hafa þeir dregist aftur úr á undanförnum árum og eru langt frá því að vera samkeppnisfærir við nágrannalönd okkar. Verði ekkert að gert þá munum við standa uppi með kostnaðinn við að mennta fólkið okkar sem flytur úr landi um leið og færi gefst. Þetta fólk kemur jafnvel ekki aftur.

Einfaldast ætti að vera að styrkja gengi íslensku krónunnar en það virðist nákvæmlega enginn vilji vera fyrir því á Alþingi enda telja menn þar að krónan sé styrkur okkar því að hægt sé að leiðrétta handónýta efnahagsstefnu án nokkurra átaka. Þetta hefur margoft verið gert og verður eflaust notað áfram ef við breytum ekki um kúrs. Við megum ekki gleyma því hvað það var sem olli efnahagshruninu. Of sterk króna til langs tíma, innistæðulaus úttekt, er leiðrétt með gífurlegri gengisfellingu og kúrsinn leiðréttur. Á kostnað íslensks launafólks!


Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?