Fréttir frá 2013

01 21. 2013

Kjarasamningar framlengdir með breytingum!

Launahækkun þann 1.2.2013 (útborgun mánaðarmót feb/mars)Rétt í þessu voru undirrituð skjöl sem tryggja gildi kjarasamninganna, búið er að stytta gildistíma þeirra samninga sem giltu til 31. janúar 2014 til 30. nóvember á þessu ári (stytting um tvo mánuði). Laun munu því hækka um 3,25% um næstu mánaðarmót (til greiðslu mánaðarmótin febrúar/mars), en ákveðnir launataxtar hækka um 11.000 kr samkvæmt kjarasamningunum. Jafnframt er nú hafið átak í atvinnu- sem og verðlagsmálum. Stærsti óvinur íslensks launafólks er verðbólga en hún hefur verið allt of há á undanförnum árum og síðasta áratug. Því er það verkefni okkar á þessu ári að vinna markvisst gegn verðlagshækkunum á Íslandi með því að við neytendur, félagsmenn aðildarfélaga RSÍ, ASÍ sem og aðrir landsmenn taki höndum saman og verðum virkir neytendur. Fylgjumst með verðlagsbreytingum og látum í okkur heyra. Við skulum láta vita þegar verðlag verslana helst stöðugt eða lækkar. Við skulum láta heyra enn frekar í okkur ef verðlag hækkar!

Það er kominn tími til þess að láta á það reyna hvort við getum náð svipaðri stöðu og í Þjóðarsáttinni í kringum árið 1990, hvort mögulegt sé að ná verðbólgu niður hér á landi með samtakamætti Íslendinga. Það er allt að vinna í þessu, lægra verðlag, lægra vaxtastig, aukin velferð heimila landsins ásamt auknum ráðstöfunartekjum heimilanna.

Takist þetta ekki, fyrirtæki velti hækkunum út í verðlag, ríki og sveitarfélög hækki gjaldskrár á þjónustu þeirra og verðbólga aukist í framhaldinu þá getum við væntanlega gefið okkur það að sú leið hefur verið fullreynd og við þurfum að leita nýrra leiða. Sú leið getur vart verið án breytinga á peningastefnu okkar, staða gjaldmiðils verði styrkt með raunsæjum hætti, getur ekki verið án breyttra starfshátta á Alþingi Íslendinga sem og þjóðarbúsins í heild. Við verðum að horfa til lengri tíma til þess að auka lífsgæði íslensks launafólks, raunveruleg lífsgæði!

Strax á næstu dögum verður hafist handa við undirbúningsvinnu við gerð næstu kjarasamninga, RSÍ sem og aðildarfélög þess munu ekki láta sitt eftir liggja í þessum málum. Kröfur munu væntanlega taka mið af þróun þessa árs hvað varðar verðlag og því afar mikilvægt að allt gangi sem skyldi.

Unnið verður að atvinnustefnu á næstu vikum með það að markmiði að efla vinnumarkaðinn, fjölga góðum störfum til að bæta lífskjör á grunni stöðugleika. Jafnframt verður unnið að fleiri mikilvægum þáttum sem verða ekki tíundaðir að sinni. 

Skjöl sem undirrituð voru er að finna hér:

Skjal forsendunefndar ASÍ og SA

Samkomulag ASÍ og SA vegna endurskoðunar og framlengingar kjarasamninga

 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?