Fréttir frá 2013

01 18. 2013

Kjarasamningar haldi gildi sínu með breytingum!

Logo RSÍ 2Rafiðnaðarmenn vilja tryggja gildi kjarasamninganna!

Í skoðanakönnun sem send var til félagsmanna aðildarfélaga Rafiðnaðarsambands Íslands í lok desember kom fram skýr vilji félagsmanna vegna endurskoðunar kjarasamninganna. Tæp 60% þeirra sem tóku afstöðu til spurningar varðandi endurskoðun kjarasamninganna vildu leggja áherslu á að sækja leiðréttingar á kjarasamningunum og þar með tryggja gildi þeirra. Rúm 27% vildu segja samningunum upp þrátt fyrir að launahækkun myndi tapast. 13% höfðu ekki skoðun á þessu.

Ef við horfum eingöngu til þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar þá vildu um 69% félagsmanna tryggja gildi kjarasamninganna en 31% vildu segja þeim upp.

Í ljósi þessa þá mun Rafiðnaðarsambandið leggja til að kjarasamningar muni halda gildi sínu með breytingum sem sátt hefur náðst um á vettvangi ASÍ, þ.e.a.s. með styttum samnningstíma o.s.frv. Jafnframt leggjum við mikla áherslu á að allir aðilar á íslenskum markaði leggi sín lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja stöðugt eða lægra verðlag og þar með verði stuðlað að lægri verðbólgu. Það er hagur allra að verðbólga sé lág og stöðugleiki náist í hagkerfinu.

Bætt vinnubrögð við samningsgerð er aðkallandi en vinna við gerð kjarasamninga getur tekið töluverðan tíma og aðilar eiga að hefja vinnu fyrr til þess að geta undirritað kjarasamninga áður en gildandi samningur rennur út. Hvernig þetta verður að þessu sinni er erfitt að segja en aðilar ætla sér að leggja áherslu á betri vinnubrögð. Farið verði í átak til að auka menntun félagsmanna til samræmis við markmið um að innan við 10% vinnumarkaðar verði án viðurkenndrar framhaldsmenntunar. Áfram verði unnið að jöfnun lífeyrisréttinda líkt og fram kemur í kjarasamningunum, þetta þýðir útvíkkun á tímaramma þess ákvæðis. Enda er það mikilvægt fyrir almennan vinnumarkað að njóta sömu réttinda og sá opinberi nýtur í dag.

Aðilar á vinnumarkaði ætla að vinna að ýmsum öðrum málum fari svo að samningar haldi gildi sínu en niðurstaða vegna endurskoðunar mun liggja fyrir næstkomandi mánudag kl. 16:00. Haldi samningar gildi sínu munu laun almennt hækka um 3,25% eða lægstu taxtar kjarasamninga um 11.000 kr. þann 1. febrúar næstkomandi.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?