Fréttir frá 2012

12 2. 2012

Endalausar verðlagshækkanir!

HaekkunNú nýverið tilkynnti Landsnet að verðskrá fyrirtækisins mun hækka um 9% til almennings en um 20% til stórnotenda. Hækkun sem þessi skilar sér í hækkun á þeirri raforku sem heimili landsins kaupa og mun sá þáttur raforkunnar sem snýr að flutningi hækka um 9%. Þetta hefur jafnframt þau áhrif að verðbólga mun aukast og þar með þurfa heimili landsins öll, sama hvort sem vextir eru verðtryggðir eða óverðtryggðir, að greiða hærri vexti af lánum sínum. Þetta veldur því annarsvegar að skuldir landsmanna hækka þegar skuldir eru verðtryggðar en einnig að greiðslubyrði þeirra sem skulda óverðtryggt mun aukast.

Ef við höldum áfram þá munu laun landsmanna þurfa að hækka að lágmarki um sömu tölu til þess að halda í við verðlag enda verður ekki við það unað að laun lækki miðað við verðlag enda hefur undanfarin ár verið miðað við það að laun hækki umfram verðlag, þ.e.a.s. að kaupmáttur aukist. Síðustu kjarasamningar beindust sérstaklega að þessum þætti og því er það miður að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki dembi verðhækkunum út á markaðinn sem auka verðbólguþrýsting. Nú um áramót munu ýmsir skattar hækka á vörum sem ríkið hefur í einkasölu, svo sem áfengi og tóbak. Þessar hækkanir munu skila sér í aukinni verðbólgu, í hærra vaxtastigi Seðlabanka Íslands.

Hækkun Landsnets á stórnotendur mun einnig mögulega lenda á almenningi þessa lands næstu 10-20 árin þar sem flestir og stærstu raforkusamningar stórnotenda eru fastir og því geta raforkufyrirtæki mögulega í einhverjum tilfellum ekki hækkað verðið á rétta kaupendur heldur sækja þessa hækkun mögulega til annarra neytenda. 

Það er nauðsynlegt að aðilar haldi að sér höndum ef stefna á að því að skapa stöðugleika. Launafólk mun ekki sætta sig við það að sitja eftir þegar verðbólga eykst og því verða laun að hækka umfram verðlag á komandi árum og áratug, rífleg hækkun launa er nauðsynleg til þess að jafna hlut launafólks eftir efnahagshrunið. Sé ekki vilji til þess að stuðla að stöðugleika á markaðnum þá munu rafiðnaðarmenn ekki sitja rólegir og sætta sig við minni hækkanir. Leiðrétting á kaupmætti rafiðnaðarmanna er nauðsynleg, mikil þörf er á að auka ráðstöfunartekjur félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands en þetta er sá hópur sem iðulega er talað um sem hópurinn með breiðu bökin, millitekjuhópurinn. Breiðu bökin eru ekki það breið að þau geti endalaust tekið á sig meiri útgjöld!

Við krefjumst þess að ríki, sveitarfélög og þar með opinberar stofnanir og fyrirtæki sýni gott fordæmi og haldi að sér höndum þegar kemur að verðlagshækkunum enda auka þær verðbólgu sem eykur þörf á endalausum verðlagshækkunum!

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?