Fréttir frá 2012

10 27. 2012

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ - Ályktanir

Logo RSÍ 2Undanfarna tvo daga var trúnaðarmannaráðstefna RSÍ haldin á Selfossi. Trúnaðarmannaráðstefnuna sækja hátt í 100 trúnaðarmenn á ári hverju en trúnaðarmennirnir starfa víðsvegar um landið hjá hinum ýmsu fyrirtækjum. Trúnaðarmenn eru kjörnir af félagsmönnum RSÍ á hverjum vinnustað fyrir sig en hafa það hlutverk að verja kjör og réttindi okkar félagsmanna sem til þeirra leita. Trúnaðarmenn þurfa oft á tíðum einnig að fræða félagsmenn um kjarasamninga og ákvæði þeirra en það getur verið mjög krefjandi starf sem trúnaðarmenn sinna enda ekki alltaf vinsælustu skilaboðin sem þeir þurfa að færa okkar fólki enda einsetja trúnaðarmenn sér að vera með uppbyggilega gagnrýni sem leiðir til betra samfélags. Það brennur oft við í dag að jafnvel forystumenn verkalýðshreyfingarinnar afvegaleiði almenning með vinsældakeppni óhað því hvort málefnalega sé staðið að þeirri gagnrýni.

Umræður spunnust eðlilega um hin ýmsu mál er snúa að réttindum og skyldum okkar félagsmanna á vinnumarkaðnum og voru kjarasamningar hæst á baugi í þeirri umræðu. Við horfum til þess að endurskoðun kjarasamninga verður í janúar á næsta ári og staða mála í dag lítur alls ekki vel út. Það eru ýmis mál sem enn standa útaf borðinu og þar má fyrst og fremst nefna gengi íslensku krónunnar. Í desember mælingu þessa árs þarf gengisvísitalan að vera komin niður í 190 en gengisvísitalan er í dag tæplega 30% veikari. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á lífskjör okkar fólks og því hefur verið lögð mikil áhersla á að krónan styrkist og myndi þar með grundvöll fyrir því að verðbólga gangi niður og þar með að kaupmáttur okkar fólks aukist. Til þess að þetta sé mögulegt þá er nauðsynlegt að við höfum agaða efnahagsstjórn hér á landi en einnig hefur verið bent á það að festa mætti gengi krónunnar til ákveðins tíma enda erum við í gjaldeyrishöftum og förum þar af leiðandi hvort sem er ekki eftir öllum ákvæðum EES samninganna. 

Helsta kjarabót okkar er að verðlag lækki hér á landi en það verður ekki gert nema með styrkingu krónunnar og það tryggt að styrking hennar skili sér í verðlag! Það verður ekki við það unað að verslunareigendur taki sí og æ veikingu krónunnar og hækki verðlag en sleppa því síðan oftar að lækka verð þegar styrking krónunnar er raunveruleg, sem betur fer er það ekki algilt og einhverjir verslunareigendur leggja sitt af mörkum. Þá getum við einnig bent á ríki og sveitarfélög en þessir aðilar eiga og verða að halda að sér höndum í hækkunum á verðskrám enda demba þeir hækkuninni beint í verðbólguna með þeim afleiðingum sem við þekkjum.

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ sendi frá sér fjölmargar ályktanir meðal annars í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, umsóknarferli að Evrópusambandinu, húsnæðismál og mismunandi lánafyrirkomulög. Það síðast nefnda hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu enda veldur há verðbólga mikilli aukningu skulda heimila landsins. Rafiðnaðarmenn hafa þó bent á að afnám verðtryggingar hefur ekki endilega þær afleiðingar, sem þeir aðilar sem kalla eftir því að verðtrygging verði bönnuð, hefur á heimili landsins. Óverðtryggðir vextir hafa jú nákvæmlega sömu áhrif á heimili landsins nema fyrir það eitt sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir að sveiflur í greiðslubyrði óverðtryggðra lána er með svo öfgakenndum hætti að lang flest heimili landsins færu í greiðsluþrot á fyrsta degi við lítið verðbólguskot. Þar kemur til að heimilin hafa skuldsett sig eftir greiðslugetu en einnig að hækkun vaxta getur aukið afborganir af vöxtum um tugi þúsunda.

Ennfremur ef verð- og óverðtryggðir vextir eru skoðaðir þá sést greinilega að um mjög sambærilega vexti er að ræða þó svo að að meðaltali voru óverðtryggðir vextir mun hærri fyrir Hrun en hafa hins vegar verið hagstæðari eftir Hrun. Ástæðu þess að óverðtryggðir vextir eru sambærilegir og þeir verðtryggðu má rekja til þess að í óverðtryggðum vöxtum er verðbólguálag innifalið og ákveðið af lánveitanda hverju sinni en þeir verðtryggðu taka mið af verðlagi hvers tíma og því hefur lánveitandi ekki bein áhrif á verðlagsþátt lánanna.

Það er klárt að það eru kostir og gallar við bæði lánafyrirkomulögin en rafiðnaðarmenn vilja tryggja það að félagsmenn geti staðið við afborganir lána án þess að fara strax í greiðsluþrot. Þjóðfélagið verður ekki betur sett með stærri hluta heimila gjaldþrota á götunni. Því ber að varast þegar "patent lausnir" ber á góma enda er auðvelt að reyna að afvegaleiða almenning með slíkum lausnum. Við krefjumst því raunverulegra lausna og ábyrgrar umræðu.

Ályktanir trúnaðarmannaráðstefnu eru eftirfarandi:

Ályktun um Evrópumál
Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands hvetur stjórnvöld til þess að ljúka aðildarviðræðum við ESB með það að markmiði að ná fram sem hagstæðustum samningi fyrir íslenska þjóð. Vissulega eru aðstæður innan ESB erfiðar um þessar mundir en það á að vera í höndum þjóðarinnar að meta hvort sá samningur sem viðræðurnar skila á endanum sé ásættanlegur eður ei. Það verður eingöngu gert í þjóðaratkvæðagreiðslu að viðræðum loknum!
Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ hvetur forystu Rafiðnaðarsambands Íslands til þess að beita sér í að halda á lofti hagsmunum rafiðnaðarmanna í allri umræðu á vinnumarkaði, m.a. hvort sem nauðsynlegt sé að benda á kosti eða galla við aðild að ESB sem og öðrum málum tengd hagsmunum félagsmanna RSÍ.

Ályktun um Kjaramál
Í janúar á næsta ári verður önnur endurskoðun kjarasamninganna sem undirritaðir voru þann 5. maí 2011, nú stefnir allt í að forsendur kjarasamninganna bresti enda eru helstu forsendur að gengisvísitala íslensku krónunnar verði komin niður í 190, verðbólga sé undir 2,5% og að kaupmáttur hafi aukist. Auk þessara atriða var stefnt að fleiri atriðum og þá ber að nefna jöfnun greiðslna í lífeyrissjóði á almennum og opinberum markaði, einnig átti að auka fjárfestingu og greiða götur framkvæmda. Það er skemmst frá því að segja að afar fá atriði hafa gengið eftir. Í umræðu á Alþingi fyrir skömmu kom fram að „Þegjandi samkomulag“ væri um að stöðva allar virkjanaframkvæmdir þrátt fyrir loforð gagnvart vinnumarkaði um hið gagnstæða!
Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ fordæmir þau vinnubrögð, þegar mikilvægum málum er lofað til þess að örva atvinnulíf og koma þjóðarbúinu þar með áfram upp úr kreppunni, að á sama tíma sé unnið gegn þeim mikilvægu málum! Það er löngu kominn tími til að efna loforð enda standa og falla kjarasamningar á þessum málefnum, beint og óbeint!
Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands krefst þess að ríki og sveitarfélög sýni gott fordæmi með aðhaldi í gjaldskrár- og skattahækkunum. Enda er það hagur allra að halda verðbólgu lágri og hækka þar með ráðstöfunartekjur launamanna!


Ályktun um efnahags- og húsnæðismál
Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ haldin á Selfossi 25. – 26. okt. 2012 en ráðstefnuna sitja um 100 trúnaðarmenn á vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar af landinu, leggur áherslu á að stjórnvöld taki höndum saman við aðila vinnumarkaðs um að skapa þær aðstæður að á Íslandi geti ríkt efnahagslegur stöðugleiki með meiri festu í gengi krónunnar og lágri verðbólgu. Þolinmæði launamanna gagnvart óöguðum vinnubrögðum stjórnmálamanna er löngu þrotin, það birtist m.a. í flótta launamanna frá landinu.

Markmið kjarasamninga er að leggja grunn að auknum kaupmætti og jöfnun lífskjara. Árangur í kjarabaráttu launamanna hefur á undanförnum árum verið jafnharðan eyðilagður með gengisfellingum. Afleiðing óagaðrar efnahagsstjórnunar veldur óstöðuleika krónunnar og mikilli verðbólgu, sem veldur því að vextir hér á landi eru tvöfalt hærri, en er í nágrannalöndum okkar. Því er verðtryggingarkerfið hér á landi virkt, á meðan það er nánast óvirkt í öðrum löndum.

Rafiðnaðarmenn krefjast þess að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en draga það í efa að afnám verðtryggingar sé hin eina sanna lausn vandans, enda er það verðbólgan sem er rót vandans, óháð lánaformi. Rafiðnaðarmenn gera sér grein fyrir því að vaxtastig hér landi er alltof hátt og með greiðsludreifingarþætti verðtryggingar er heimilum gert kleift að dreifa afborgunum yfir lengri tíma, en þetta býður jafnframt heim þeirri hættu að heimilin skuldsetji sig um of. Sveiflur í greiðslubyrði óverðtryggðra lána geta sveiflast með svo öfgakenndum hætti að flest heimili lenda í greiðsluerfiðleikum við hvert verðbólguskot. Rafiðnaðarmenn kalla eftir raunverulegum lausnum á skuldavanda heimilanna, í stað þess að endurtekið sé verið að drepa málum á dreif með óraunsæjum töfralausnum.

Rafiðnaðarmenn krefjast þess að ráðist verði með skipulögðum hætti að rótum vandans með því festa gengi krónunnar á ásættanlegu gengi fyrir almenning og að tryggja síðan að sá gjaldmiðill sem hér er notaður til framtíðar verði stöðugur svo hægt verði að afnema gjaldeyrishöft innan skamms tíma.

Trúnaðarmannaráðstefna rafiðnaðarmanna telur að á skömmum tíma sé mögulegt, í samvinnu við lífeyriskerfið, að bjóða upp á hagstæð lán fyrir fjölskyldur sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þetta mun hvetja ungt fólk til sparnaðar, tengdan uppbyggingu réttinda í samtryggingar- og séreignakerfi lífeyrissjóðanna. Í tengingu við þetta kerfi væri hægt að byggja upp leigumarkað sem stæði til boða sambærileg kjör til langs tíma. Þarna gætu verið ásættanleg fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði og þurfa stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðsins að huga að gera þetta kleift m.a. með lagabreytingum.

Ályktun um svarta atvinnustarfsemi
Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ haldin á Selfossi 25. – 26. okt. 2012 lýsir yfir miklum vonbrigðum hversu lítið stjórnvöld hafa tekið á aukinni svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki. Í Stöðuleikasáttmálanum voru ákvæði um að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og stjórnvöld myndu sameinast um að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir þennan vanda, þar sem þeir sem standa að slíkri starfsemi verði dregnir til ábyrgðar og beittir þungum viðurlögum. Á þessum vanda hafa stjórnvöld ekki tekið með sama hætti og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar. Þar vilja trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna benda sérstaklega á hvernig Norðmenn hafa tekið á þessum mikla vanda.

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?