Fréttir frá 2012

10 26. 2012

Launakönnun RSÍ 2012

LaunahækkunÍ gær og í dag stóð Rafiðnaðarsamband Íslands fyrir árlegri trúnaðarmannaráðstefnu. Ráðstefnuna geta allir trúnaðarmenn RSÍ sótt enda er þetta einn mikilvægasti samráðsvettvangur rafiðnaðarmanna. Á ráðstefnunni var farið yfir efnahags- atvinnu-, lífeyris-, húsnæðis- og Evrópumál. Einnig var árleg launakönnun RSÍ kynnt en könnunin var framkvæmd í október mánuði og endurspeglar laun félagsmanna RSÍ fyrir september mánuð.

Helstu niðurstöður launakönnunar eru þær að meðaltalheildarlaun rafiðnaðarmanna í september voru 517.435 kr á mánuði en þau hækkuðu um rétt rúm 8% á milli ára. Þetta eru þau laun sem greidd eru fyrir alla vinnu og því er nokkur yfirvinna innifalin í þessari upphæð. Ef litið er til meðaltals dagvinnulauna þá eru þau 408.139 kr en dagvinnulaunin hækkuðu um 11,2% á milli ára.

Menntun félagsmanna RSÍ er þó mjög breytileg en menntun er allt frá grunnskólaprófi, sérhæfð tæknimenntun, sveinspróf og háskólapróf. Á undanförnum árum hafa konur valið í meira mæli að ljúka sveinsprófi í rafiðngreinum enda eru konur mjög eftirsóttar í rafiðnaði þar sem rafiðngreinar henta konum jafnt sem körlum.

Sérstaklega áhugavert er að skoða dagvinnulaun karla og kvenna sem hafa lokið sveinsprófi eða meira námi en þar eru konur með 495.798 kr en karlar með sama nám að baki með að meðaltali 419.895 kr. En þetta gerir um 18% launamun kynjanna konum í hag. Þetta sýnir klárlega að konur sem velja þá leið að ljúka sveinsprófi í rafiðngreinum eru mjög eftirsóttar og þeim stendur oft á tíðum mjög góð laun til boða. Það geta einnig legið fleiri ástæður þarna að baki svo sem starfsaldur og hvort konur séu almennt frekar í ábyrgðarstöðum.

Ef horft er til heildarlauna sama hóps karla og kvenna, þ.e.a.s. þau sem lokið hafa sveinsprófi, þá eru karlar með hærri heildarlaun sökum þess að þeir vinna meiri yfirvinnu en konur. Heildarlaun karla voru 550.100 kr á móti 544.143 kr hjá konum og munar því rétt um tæpum 6.000 kr. En rétt er að taka fram að félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands eru ekki eingöngu sveinar í iðngreinum heldur einnig tæknimenntað fólk

Launakönnunin verður birt í heild sinni á næstu dögum á heimasíðu RSÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?