Fréttir frá 2012

05 10. 2012

Lyfjaverðs-könnn ASÍ

asi logo v3 cmyk-2Garðs Apótek og Lyfjaver Suðurlandsbraut oftast með lægsta verðið á lausasölulyfjum

Lyfjaver Suðurlandsbraut og Garðs Apótek við Sogaveg voru oftast með lægsta verðið á lausasölulyfjum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í apótekum landsins mánudaginn 7. maí. Lyfjaval Álftamýri var oftast með hæsta verðið í könnuninni.  Verðmunur á lausasölulyfjum var frá 26% upp í 72%, en í flestum tilvikum var fjórðungs til helmings verðmunur.

Kannað var verð á 38 algengum lausasölulyfjum, sem eru seld án lyfseðils. Farið var í apótek á öllu landinu en Árbæjarapótek neitaði þátttöku í könnuninni. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Garðs Apóteki við Sogaveg og Lyfjaveri á Suðurlandsbraut eða í 12 tilvikum af 38, þar á eftir kom Apótekið Akureyri Furuvöllum og Apótek Garðabæjar Litlatúni með lægsta verðið í 9 tilvikum af 38. Hæsta verðið var oftast hjá Lyfjavali Álftamýri sem reyndist dýrast í um helmingi tilvika, Lyfjaborg Borgartúni kom þar á eftir með hæsta verðið í 6 tilvikum af 38.  

Mesti verðmunurinn í könnuninni var á hægðalyfinu Laxoberal (30 ml.) var það dýrast á 2.738 kr. hjá Austurbæjar Apóteki Ögurhvarfi og ódýrast á 1.589 kr. hjá Garðs Apóteki, sem er 1.149 kr. verðmunur eða 72%. Næst mesti verðmunur var á Ovestin hormóni (15 stk.). Það var dýrast á 2.496 kr. hjá Austurbæjar Apóteki Ögurhvarfi en ódýrast á 1.490 kr. hjá Garðs Apóteki Sogavegi sem er 68% verðmunur.  Ferrous Sulphate, fæðubótaefni (200 mg. 100 stk.) var dýrast á 695 kr. hjá Lyfjaborg Borgartúni en ódýrast á 431 kr. hjá Lyfjaveri Suðurlandsbraut sem er 61% verðmunur.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á Fungoral sveppaeyðandi sápu (120 ml.) sem var dýrust á 2.248 kr. hjá Lyfjavali Álftarmýri en ódýrust á 1.790 kr. hjá Garðs Apóteki og Lyfjaborg Borgartúni sem er 26% verðmunur. Af öðrum algengum lausasölulyfjum má nefna að nikótínlyfið Nicotinell fruitmint  (2 mg. 204 stk.) sem var dýrast á 5.295 kr. hjá Lyfjavali Álftamýri en ódýrast á 4.185 kr. hjá Lyfjaveri Suðurlandsbraut sem er 1.110 kr. verðmunur eða 27%. Verkjalyfið Panodil (500 mg. 30 stk.) var dýrast á 550 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki en ódýrast á 349 kr. hjá Apótekinu Akureyri og Apóteki Garðabæjar sem er 58% verðmunur.     

Sjá nánar í töflu.

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekaranum Vesturbæjarapótek, Melhaga 20-22; Apótekinu Akureyri, Furuvöllum 17; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Lyfju Húsavík; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Lyfjaborg Borgartúni 28; Austurbæjar Apótek, Ögurhvarfi 3.  Árbæjarapótek neitaði þátttöku í könnunni. Rétt er að taka fram að mörg apótek veita afslátt af lausasölulyfjum til ellilífeyrisþega og öryrkja.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?