Fréttir frá 2012

05 1. 2012

Kröfugöngur og ræðuhöld 1. maí!

1.maiMikill fjöldi launafólks fylktu liði í kröfugöngum í dag í mjög góðu veðri, mæting var með eindæmum góð og gríðarlegur fjöldi mætti í 1. maí kaffi Rafiðnaðarsambands Íslands og MATVÍS. Fjöldi hefur ekki verið svo mikill árum saman og frábært að hitta félagsmenn á þessum baráttudegi verkalýðsins. 

Formaður RSÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson, var annar ræðumanna á Ingólfstorgi þetta árið en dagskráin var mikið breytt frá fyrra ári þar sem Kvennakór Léttsveitar Reykjavíkur, Drengjakór Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur sungu vel valin lög og lúðrasveitir spiluðu undir. Endað var á "Internasjónalinum" og tóku allir vel undir. 

Ræðu formanns RSÍ má sjá hér að neðan:

 

 

GÓÐIR FÉLAGAR!

Til hamingju með baráttudag Verkalýðsins 2012!

“Fram, þjáðir menn í þúsund löndum, sem þekkið skortsins glímutök!”

Fyrir 89 árum var í fyrsta skipti gengin kröfuganga þann 1. maí á Íslandi.

Á þessum sama tíma hefur þjóðin gengið í gegnum miklar breytingar, við höfum upplifað mikil áföll, fjárhagsleg sem og miklar náttúruhamfarir. Við höfum staðið það af okkur enda er íslenska þjóðin ein sterkasta þjóð heims.
Fyrir 89 árum bjó fólk í Torfbæjum og það er merkilegt að ekki þurfi að fara lengra aftur í tímann til þess tímabils en amma mín og afi ólust upp í torfbæjum. Á þessum árum var mikil fátækt víðast um land. Allt heimilisfólk hafði hlutverki að gegna. Matur var nægur víðast hvar en það var eingöngu vegna þess að matur var skammtaður.
Á þessum tíma þekktist það að börn gengju um í skinnskóm því munaður eins og stígvél voru ekki á hverju heimili! Börn hófu vinnu jafnvel 7-8 ára gömul.

Það má því með sanni segja að íslenska þjóðin hafi þróast hratt. Við höfum í gegnum tíðina nýtt þær náttúruauðlindir sem landið hefur upp á að bjóða. Þetta hefur ætíð verið gert til þess að þjóðin geti aflað sér nauðsynja til þess einfaldlega að draga fram lífið. Við vitum það að ef við göngum of nærri náttúrunni þá höfum við minna fyrir okkur síðar. Árið 1904 var fyrsta vatnsaflsvirkjun reist á landinu og síðan þá höfum við nýtt í auknum mæli þá auðlind okkar.

Þjóðfélagið hefur breyst frá þessum tíma vegna þess að fólkið krafðist betri lífskjara! En fólkið þurfti að leggja margt á sig til þess að ná þessum framförum!

Þetta er gert með samtakamætti launafólks!

Það er forsenda þess að við getum lifað hér á landi að við sköpum verðmæti úr þeim auðlindum sem við eigum og þau verðmæti eiga að renna í auknum mæli til þjóðarinnar!

Við krefjumst bættra kjara.
Við krefjumst þess að allir landsmenn hafi atvinnu og menntun við hæfi!
Við krefjumst þess að þær auðlindir sem við nýtum verði til þess að skapa störf fyrir alþýðu þessa lands!
Við eigum að stuðla að því að þeir fjármunir sem við leggjum í ríkissjóð séu nýttir á sem hagstæðastan hátt í þágu almennings.

Það er nauðsynlegt að draga úr tekjutengingum barna og vaxtabóta þannig að heimilin njóti afsláttar af þeim vaxtakjörum sem okkur stendur til boða. Enda eru þau vaxtakjör allt of há í samanburði við nágrannalönd okkar.
Við verðum að draga úr tekjusköttum enda er mikil þörf á því að einkaneysla aukist, það er hagur allra að eðlileg viðskipti drífi hagkerfið áfram í stað skatta ríkisins!

GÓÐIR FÉLAGAR!

Réttindi okkar falla ekki af himnum ofan, við þurfum sífellt að berjast fyrir þeim!

Þrátt fyrir það Hrun sem við gengum í gegnum og þá erfiðleika sem Hruninu fylgir í dag þá höfum við mikinn auð. Landið okkar býður okkur upp á fjölmargar auðlindir sem mögulegt er að nýta. Í dag nýtum við þær að þó nokkru leyti, ferðamannaiðnaðurinn er sífellt vaxandi og eru áfangastaðir eins og Gullfoss og Geysir gríðarlega vinsælir.
Mikil aðsókn er í Bláa lónið enda er lónið mjög sérstakt. En það er í raun og veru mjög gott dæmi um það hvernig við getum nýtt okkur náttúruauðlindirnar á margvíslegan hátt því í Svartsengi framleiðum við einnig raforku og varma til kyndingar húsa.
Við getum því sannanlega nýtt auðlindir þjóðarinnar með þeim hætti að ferðamannaiðnaður skapist samhliða annarri nýtingu auðlindanna.

Það er þó eins með nýtingu náttúruauðlinda og uppbyggingu bankakerfis, VIÐ GETUM FARIÐ OF GEYST AF STAÐ! Það er nauðsynlegt að við setjum okkur skýran ramma um þær auðlindir sem við vitum að nýtanlegar eru og þeir virkjanakostir séu rannsakaðir vandlega. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er dæmi um slíkan ramma sem hægt er að fara eftir. Mikill fjöldi sérfræðinga hafa komið að þeirri vinnu en þar eru virkjanakostir flokkaðir niður eftir eðli hvers virkjanakosts og þeir settir í nýtingar-, bið eða verndunarflokk. Það er okkur mikilvægt að ekki sé ráðist í framkvæmdir á þeim stöðum sem skal vernda og við viljum að slík áætlun sé ópólitísk þannig að komandi ríkisstjórnir telji sig bundnar af slíkri áætlun.

Nú hefur verið lagt til af nefnd Alþingis að breyta rammaáætluninni og það af pólitískum en ekki faglegum ástæðum! Slík breyting dregur úr vægi þessarar áætlunar og fari áætlunin breytt í gegn má gera ráð fyrir því að þessari rammaáætlun verði breytt á hverju kjörtímabili með það fyrir augum að sefa pólitískar raddir! Við eigum að setja okkur áætlun sem við ætlum okkur að fara eftir!

Nú er tækifærið okkar að byggja Ísland upp aftur á réttum forsendum. Við byggjum ekki upp gott þjóðfélag nema heiðarleiki og traust ríki. Það er nauðsynlegt að geta greint á milli þess sem rétt er og rangt. ÞAÐ ER EKKI SÍÐUR MIKILVÆGT AÐ VIÐ GETUM ÁTTAÐ OKKUR Á ÞVÍ SEM SIÐLAUST ER!

Við eigum að vera gagnrýnin þjóð, við eigum að fylgjast með því sem gerist í kringum okkur. Við eigum ÖLL að vera þátttakendur í þjóðfélaginu EN við eigum að rýna til gagns!
Það er kominn tími til að halda áfram en við megum ALDREI gleyma Hruninu og ástæðum þess hvernig fór! Eftirlit og sjálfsgagnrýni er þar stór þáttur!

GÓÐIR FÉLAGAR
“Fúnar stoðir burtu við brjótum”

Við verðum að byggja upp traust á faglegum nótum því án þess náum við aldrei að byggja Ísland aftur upp! Við eigum að nýta þann mikla auð sem er í alþýðu þessa lands!

Við krefjumst þess að rétt skipti séu á þeirri verðmætasköpun sem verður til hér á landi.
Við krefjumst þess að laun okkar séu ekki bara mannsæmandi heldur góð!
Við krefjumst þess að við fáum að búa við stöðugleika.
Við krefjumst þess að Íslendingar fái að búa við sambærilegt vaxtastig og aðrar þjóðir í kringum okkur!
Við eigum að krefjast þess að sá gjaldmiðill sem við höfum á milli handanna sé ekki eingöngu nýtanlegur á Íslandi.

Við búum á gjöfulu landi, við höfum gnægð auðlinda, við höfum fjölmörg tækifæri sem nauðsynlegt er að nýta! Sköpum fleiri störf!

VIÐ EIGUM FRÁBÆRT FÓLK!
STÖNDUM SAMAN OG HÖLDUM ÁFRAM!
VINNA ER VELFERÐ!

Takk fyrir.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?