Fréttir frá 2012

04 30. 2012

Ályktun um efndir ríkisstjórnar vegna kjarasamninga

Logo RSÍSambandsstjórnarfundur RSÍ kallar eftir efndum ríkisstjórnar Íslands á loforðum þeim er gefin voru í tengslum við gerð kjarasamninga þann 5. maí 2011. Nauðsynlegt er að koma skuldugum heimilum, sem eiga við greiðsluvanda að stríða, til hjálpar. Draga ber úr eigna- og tekjutengingum vaxtabóta með þeim hætti að vaxtabæturnar skili sér jafnt til lág- og millitekjuhópanna. Millitekjuhópurinn er sá hópur sem ber þyngstu byrðarnar í skattlagningu þessa lands en hefur einnig komið hvað einna verst út úr Hruninu þar sem vaxtabætur hafa verið skornar niður og í mörgum tilfellum eru þær engar ásamt því að tekjuskattur á sama hóp hefur hækkað verulega!

Það verður ekki bæði haldið og sleppt þar sem slík skattpíning kemur af fullum þunga niður á neyslu almennings og dregur þar af leiðandi atvinnulífið niður. Nauðsynlegt er að sýna mikið aðhald í ríkisfjármálunum en það skal gera á réttum stöðum og með það fyrir augum að mögulegt sé að örva atvinnulífið upp með aukinni neyslu almennings. Það er löngu kominn tími til þess að draga úr skattlagningu en til þess þarf að sýna hugrekki, dug og þor.

Nauðsynlegt er að hækka hámark fæðingarorlofsgreiðslna enda hefur verulega dregið úr nýtingu foreldra á fæðingarorlofum og þá sérstaklega feðra. Það hlýtur að vera stefna ríkisstjórnar Íslands að standa vörð um réttindi launþega landsins og stuðla að því að foreldrar geti notið fyrstu mánaðanna með börnum sínum á mannsæmandi hátt!

Lögð hefur verið mikil vinna í gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Víðtæk sátt náðist um áætlunina í meðferð hinna ýmsu hagsmunahópa er um hana hafa fjallað og eru það ótæk vinnubrögð að breyta slíkri áætlun eingöngu af pólitískum ástæðum. Ef sátt á að ríkja um áætlanir um nýtingar náttúruauðlinda til framtíðar er nauðsynlegt að halda pólitík fyrir utan slíka áætlun, enda eru auðlindir landsins ekki til þess gerðar að slá pólitískar keilur!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?