Fréttir frá 2012

04 30. 2012

Ályktun um lagningu sæstrengs til flutnings á raforku

Logo RSÍSambandsstjórnarfundur Rafiðnaðarsambands Íslands telur nauðsynlegt að gerð sé mikil og ítarleg greining á áhrifum lagningar sæstrengs til flutnings á raforku til meginlands Evrópu. Nauðsynlegt er fyrir þjóðina að fá mat á því hvort lagning slíks strengs sé heppileg fyrir þjóðarbúið. Það er vitað mál að slík tenging skilar sér í hækkuðum raforkukostnaði hér heima og þá fyrst og fremst til heimila landsins ásamt nýjum iðnaði sem nýtir orkuna. Þetta leiðir síðar til þess að raforkuverð til stóriðju mun hækka þegar raforkusamningar verða endurnýjaðir.

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að hugsa til þess hverju raforkan skilar þjóðinni. Þjóðin hefur tekjur af nýtingu orkunnar í dag ásamt því að þegnar þessa lands hafa af því atvinnu, hvort sem það er í stóriðju eða framleiðslu á nytjavörum. Sambandsstjórnarfundurinn telur aukin verðmæti í þeim störfum sem verða til hér heima og því ætti þjóðin að nýta raforkuna til verðmætasköpunar á heimaslóðum í stað þess að selja raforku úr landi sem hrávöru.

Nauðsynlegt er að fjölga störfum á landinu sem skapa verðmæti hvort sem það er í nýjum hátækniiðnaði eða rótgrónum atvinnugreinum. Nýtum þær auðlindir sem við eigum í þágu þjóðarinnar. Nýtum þá sérstöðu sem Ísland býr við og seljum afurðir okkar sem hreinar afurðir framleiddar með grænni orku! Sköpum störf til framleiðslu á grænum vörum!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?