Fréttir frá 2012

03 7. 2012

Umfjöllun um Íslandsmót iðn og verkgreina 2012

VerkidnSérstök umfjöllun var í Fréttablaðinu í gær um Íslandsmót iðn og verkgreina sem mun fara fram þann 9. og 10. mars næstkomandi (föstudag og laugardag). Ein greinin var skrifuð af formanni RSÍ og birtist hún hér að neðan, nánari upplýsingar um keppnina má sjá á www.verkidn.is og einnig í aukablaði sem fylgdi Fréttablaðinu þann 6. mars.

Greinin úr Fréttablaðinu:

Á Íslandsmóti Verkiðnar er keppt í fjölmörgum iðngreinum þar á meðal tveimur rafiðngreinum. Undanfarin ár hefur verið keppt í rafvirkjun og hefur Félag íslenskra rafvirkja stutt dyggilega við keppnina en einnig hefur félagið sent keppendur út á heimskeppnina, WorldSkills. Í ár verður einnig keppt í rafeindavirkjun.

Það er virkilega áhugavert að fylgjast með öllum keppnisgreinunum og í raun alveg magnað að sjá mikla færni og þekkingu ungs fólks sem er að feta sín fyrstu skref í framhaldsskólum og á vinnumarkaði. Nýsköpun og hátækniiðnaður þrífst ekki í landi þar sem skortur er á tæknimenntuðu fólki. Rafiðngreinar spila stórt hlutverk í þróun nýs tæknibúnaðar hvort sem unnið er að betri nýtingu hráefnis eða framleiðslu á nýjum búnaði.

En af hverju að velja iðnnám?

Þeir einstaklingar sem ljúka sveinsprófi í rafiðngreinum eru mjög eftirsóttir úti á vinnumarkaðnum jafnt hér heima á Íslandi sem erlendis, þeir sem ætla sér í frekara háskólanám eins og tæknifræði eða verkfræði ættu að kynna sér iðngreinar fyrst því það hefur sýnt sig að þeir sem hafa farið verknámsleið upp í Háskóla verða oft á tíðum bestu sérfræðingarnir. Í dag er einnig boðið upp á möguleikann á að ljúka stúdentsprófi samhliða verknámi.

Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að rafiðngreinar höfða jafnt til karla og kvenna. Konum fjölgar jafnt og þétt í rafiðnaði og á undanförnum misserum hafa þær konur sem lokið hafa sveinsprófi sýnt það og sannað að þær eiga fullt erindi í rafiðngreinar enda hafa þær lokið sveinsprófum með góðum árangri og hafa á undanförnum árum verið á mjög góðum launum. Rafiðngreinar hafa í gegnum tíðina verið taldar með arðbærari störfum sem mögulegt er að mennta sig í. Það þýðir að sá kostnaður sem nemendur þurfa að leggja út til þess að afla sér menntunar, á móti þeim tekjum sem vænta má að námi loknu, er hlutfallslega mjög lítill.

Ég hvet þá sem eru að velta fyrir sér að bæta við menntun sína, hvort sem þeir eru að koma úr grunnskóla eða komnir á vinnumarkað, að kíkja við í Háskólanum í Reykjavík dagana 9. og 10. mars næstkomandi og kynna sér þær fjölmörgu iðngreinar sem keppt er í. Þetta er einnig kjörið tækifæri fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri að kynna sér iðngreinar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður Rafiðnaðarsambands Ísland

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?