Fréttir frá 2012

02 23. 2012

Sjóðfélagafundur Stafa 21. feb

Stafir smallSjóðfélagafundur Stafa 21. feb.

 

Stjórn lífeyrissjóðsins Stafa stóð fyrir sjóðsfélagafundi síðastliðin þriðjudag. Þar var til umræðu skýrsla óháðrar nefndar sem ríkissáttasemjari skipaði um tap lífeyrissjóðanna við efnahagshrunið í október 2008. Á fundinn mættu um 50 sjóðsfélagar, auk þess hefur skýrslan verið til umfjöllunar á fundi miðstjórnar RSÍ og fundi stjórnar og trúnaðarráðs FÍR. Fulltrúar rafiðnaðarmanna í stjórn lífeyrissjóðsins hafa verið á öllum þessum fundum auk framkvæmdastjóra sjóðsins.

 

Ástæða er að geta þess með tilliti til þeirra fullyrðinga sem hafa verið í fjölmiðlum, að strax eftir Hrun voru forsvarsmenn lífeyrissjóðsins kallaðir á fundi sjóðsfélaga innan RSÍ og hafa þeir verið á fjölmörgum fundum síðan þá, sumir þessara funda voru mjög fjölmennir eða vel yfir 100 sjóðsfélagar voru á sumum þeirra, samtals komu um 500 sjóðsfélagar á þessa fundi árið 2009 og svipaður fjöldi árið 2010. Á fundunum var farið ítarlega yfir afleiðingar Hrunsins og ekki síður yfir ákvarðanatöku við fjárfestingar árin fyrir Hrun. Það að lífeyrissjóðir töpuðu fjármunum í Hruninu er ekki eitthvað sem menn eru að uppgötva núna og það er ekki fyrst nú sem menn ætla að fara að grípa til aðgerða, það er búið að grípa til margskonar aðgerða eftir Hrun, fara yfir verkferla og starfsreglur stjórnar og starfsmanna.

 

Dökk mynd dregin upp

„Í úttektarskýrslunni er að finna margar gagnlegar ábendingar um úrbætur í innri starfsemi og stjórnsýslu. Sumt er í samræmi við ályktanir sem stjórn sjóðsins hafði áður dregið og gripið til ráðstafana af því tilefni, annað hefur verið tekið til athugunar,“ sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs,

 

Framkvæmdastjórinn flutti framsögu um úttektarskýrsluna, Guðmundur Gunnarsson sem kom inn í stjórn lífeyrissjóðsins á síðasta ársfundi og er núverandi stjórnarformaður, ásamt Haraldi Jónssyni fyrrv. stjórnarformanni lögðu einnig orð í belg og svöruðu fyrirspurnum, sem voru margar og fjölbreyttar. Í heildina tekið var fundurinn líflegur og umræður bæði góðar og málefnalegar. Framkvæmdastjóri boðaði að fjallað yrði ítarlega um úttekt á Stöfum og öðrum lífeyrissjóðum í væntanlegri ársskýrslu Stafa og tækifæri gæfist til að halda umræðunni áfram á ársfundi í maí næstkomandi.

 

Helstu álitaefnin

Ólafur taldi ótvírætt að lífeyrissjóðirnir hefðu orðið fyrir „miklu áfalli og traust á þeim hafi dvínað frá hruni.“ Hann bætti við, um leið og hann tók saman niðurstöður sínar: „Það er vissulega dregin upp dökk mynd af starfsemi lífeyrissjóða í skýrslunni og athyglinni beint að því sem miður fór. Lítið fer fyrir umræðu um það sem vel var gert og fjölmiðlarnir eyða heldur ekki orðum að slíku í sinni umfjöllun. Verkefnið er að byggja upp traust og við munum ræða frekar hvað ber að gera í þeim efnum og hvernig. Erfitt verður samt að réttlæta dýra markaðsherferð á kostnað sjóðfélaga til að bæta ímyndina.

 

Niðurstaða mín er sú að skaðinn er ekkert séríslenskt vandamál, lífeyrissjóðir í öllum OECD-ríkjum töpuðu á hruninu og eru enn að vinna sig út úr vandanum. Íslenska lífeyriskerfið stóð af sér storminn, þrátt fyrir allt, og eignir Stafa eru upp á um 91 milljarð króna. Við teljum vissulega að ýmsar ályktanir í úttektarskýrslunni megi rökræða en segjum jafnframt skýrt að þar eru margar gagnlegar ábendingar um úrbætur. Stjórn Stafa hefur þegar gripið til margvíslegra aðgerða til að styrkja innviðina og draga úr áhættu.“

 

Framkvæmdastjórinn nefndi þrjú álitamál sem lögmönnum Stafa var falið að kanna frekar strax og úttektarskýrslan hafði verið birt, þ.e. kaup sjóðsins á lánshæfistengdu skuldabréfi útgefnu af UBS, banka í Sviss. Víkjandi skuldabréfi útgefnu af Glitni í mars 2008 og skuldabréfum útgefnum af BG Capital ehf. Lögmennirnir hafa skilað Stöfum áliti á þann veg að kaupin hafi í öllum tilvikum verið í samræmi við lög og reglur sem gilda um starfsemi sjóðsins.

 

Stafir fóru varlega í gjaldmiðlavörnum

Stafir lífeyrissjóður hefur í samráði við Landssamtök lífeyrissjóða látið vinna sérstaka skýrslu um ábyrgð stjórnenda bankanna í því skyni að grípa til viðeigandi ráðstafana til að sækja rétt sjóðsins ef sýnt þykir að stjórnendurnir hafi brotið af sér í samskiptum við Stafi. Í því sambandi er m.a. beðið eftir niðurstöðu sérstaks saksóknara og niðurstöðu dómstóla í málum sem eru þar í meðferð eða á leið inn í dómskerfið. Þá eiga Stafir aðild að dómsmáli gegn Glitni vegna útgáfu víkjandi skuldabréfa í mars 2008.

 

Úttektarnefndin er þeirrar skoðunar að nokkrir lífeyrissjóðanna hafi verið mjög óvarkárir í gjaldmiðlavörnum sínum. Ólafur Sigurðsson segir að það eigi ekki við um Stafi, sjóðurinn hafi þvert á móti farið varlega í þeim efnum og byggt ákvarðanir sínar á ítarlegri greiningu og skýrslum. Þá sá hann ástæðu til að taka fram að gjaldmiðlavarnir væru alls ekki „séríslenskt fyrirbæri heldur mjög algengar meðal fagfjárfesta erlendis en skiptar skoðanir eru um hagkvæmni þeirra.“

 

Ólafur fjallaði um það álit úttektarnefndar að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beint á ársfundi.  Hann rifjaði upp tillögu sem samþykkt var á ársfundi Stafa 2009 um að kannað verði með hvaða hætti megi auka bein tengsl sjóðfélaga við kjör stjórnarmanna. Formlegt erindi í þessum anda var síðan sent Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins en hlaut ekki hljómgrunn. Ólafur telur ,,ekki óeðlilegt að ætla að málið verði tekið upp aftur hjá ASÍ og SA nú í kjölfar athugasemdar úttektarnefndarinnar.“

 

Sameina alla lífeyrissjóði í einn er ekki eins einfalt og sumir telja

„Það má vel hugsa sér að fækka lífeyrissjóðum landsmanna um helming eða í 10-15 sjóði og jafnvel er raunsætt að velta fyrir sér að fara í næsta skrefi niður í 4-5 sjóði. Einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn er hins vegar fráleit hugmynd og jafngildir því að ríkisvæða lífeyrissjóðakerfið og afhenda það stjórnmálamönnum til yfirráða. Sporin hræða!" sagði Guðmundur Gunnarsson.

 

Það má minna á þá fundi sem við héldum á árunum 2005 fram að Hruni, á þeim tíma voru þættir um verðbréf og hvernig best væri að ávaxta sitt pund voru nánast í hverjum fréttatíma og allstór hluti landsmanna voru sérfræðingar í því hvernig ætti að fjárfesta. Á þessa fundi mættu þáverandi stjórnarmenn Stafa og framkvæmdastjóri sjóðsins og fengu skammir fyrir að kaupa of mikið af skuldabréfum ríkis og sveitarfélaga, enda væri ávöxtunin mun lélegri en þekktist víðast annars staðar á fjármagnsmarkaðinum þar sem álitlegri kostir væru í boði. Á þensluskeiðinu mikla vildu sumir helst ekki sjá opinberu pappírana en núna snúa þeir blaðinu við og vilja helst ekkert annað sjá en ríkispappíra!“

 

Mikið vantar upp á að jafna réttindin

Guðmundur sagðist hafa sem sjóðsfélagi frá stofnum lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna 1969 hafa gengið í gegnum sameiningu lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna í tvígang, fyrst við matvælageirann og síðar við Samvinnulífeyrissjóðinn þegar Stafir urðu til. Í bæði skiptin hefðu menn eðlilega rýnt í hvort og þá hvernig slík sameining hefði áhrif á lífeyrisréttindi og iðgjaldagreiðslur. Sama yrði uppi á teningum við mögulega sameiningu í þriðja sinn, það mun gerast en það er svo spurning hvernig það verður.

 

Guðmundur gerði hér að umtalsefni útreikninga sem vinsælir álitsgjafar hampa í spjallþáttunum. Þar hafa þeir m.a. reiknað út að það sé verið að innheimta allt of hátt iðgjald. Ef þessir útreikningar eru skoðaðir kemur í ljós að þessir snillingar taka út kostnaðarliði sem falla undir samtrygginguna, það er kostnaði vegna örorkubóta, makalífeyris og barnalífeyris. Ef menn ætla að fara þá leið,þá er hægur vandi að lækka iðgjaldið um 4 – 6%. En þá verða menn að horfast í augu við það að kostar samsvarandi hækkun á tekjuskatti, það er klárt að landsmenn muni ekki sætta sig við að þessar bætur falli út og þær færast þá einfaldlega yfir á Tryggingarstofnun og hún þarf þá nýja tekjustofna.

 

„Ef allir lífeyrissjóðir innan ASÍ sameinast í einn sjóð, verða menn að velja um tvo hluti skerða réttindi eða hækka iðgjöld. Ef menn hafna því að hækka iðgjöld leiðir það til þess að réttindaávinnsla rafiðnaðarmanna skerðist um 20-25%, eða með öðrum orðum umtalsverðir fjármunir verða færðir frá einum hóp til annars og það mun bitna harðast á okkur þar sem við erum með ávinnslu upp 1,47 á meðan hún er 1,2 hjá sjóðunum innan Starfsgreinasambandsins. Einnig munum við glata niður mun öflugri makaréttindum en aðrir hafa. Ef það á hins vegar að jafna réttindin með því að auka þau hjá öðrum innan ASÍ til jafns við rafiðnaðarmenn þarf að hækka iðgjaldið um. Ég er sannfærður um að hvorugt verði samþykkt.

 

Ef stefnan væri tekin á að sameina alla lífeyrissjóði landsins í einn, án þess að skerða réttindi hjá neinum, þyrfti að hækka iðgjald upp í 19%, samkvæmt nýlegum útreikningum Fjármálaeftirlitsins. Væntanlega yrðu séreignarsjóðir iðnaðarmanna þá settir inn í samtryggingarkerfið og iðgjaldið hækkað jafnframt hjá okkur um 5-6%. Sá forystumaður Rafiðnaðarsambands Íslands sem legði til að fara slíka leið yrði látinn segja af sér fyrir kaffi á morgun, svo fjarstætt er að ræða slíkt í okkar röðum!“

 

Íslenskur „olíusjóður“?

Guðmundur sagði að vitanlega mætti velta fyrir sér ýmsum spurningum varðandi einn íslenskan lífeyrissjóð. Norski olíusjóðurinn fær tekjur af olíuauðlindunum þar í landi sem jafngilda iðgjaldagreiðslum launafólks. Honum er bannað að fjárfesta innanlands og ávaxtar því fjármunina alls staðar annars staðar en heima fyrir til að skapa ekki þensluáhrif í efnahagslífinu þar.

 

Það hafa komið fram hugmyndir frá á Alþingi um einn lífeyrissjóð á Íslandi samsvarandi olíusjóð norðmanna. Það er að loka núverandi lífeyrissjóðakerfi, leggja skatt á sjávarauðlindina og orkuna til í stað þess að innheimta iðgjöld?

 

Þá vakna spurningar eins og: Eru menn tilbúnir að breyta kvótamálum og orkukerfinu með auðlindaskatt? Á að fara að dæmi Norðmanna og láta þennan sjóð fjárfesta eingöngu erlendis eins og Olíusjóðinn þeirra nú? Þetta eru stór pólitískar spurningar.

 

Ég kem ekki sjónar á hvernig unnt væri að reka íslenskt atvinnulíf ef 19% launasummunnar yrði pumpað út úr okkar litla hagkerfi. Þeir sem vilja ræða hugmyndir um einn lífeyrissjóð á Íslandi verða að segja söguna alla. Hvað eru þeir að hugsa og hvernig þeir sjá þetta allt saman fyrir sér?“

 

Hvaða stjórnmálamenn seldu hlutabréfin sín?

„Aðalbankastjóri Seðlabankans sagði sínum mönnum í febrúar 2008 að íslenska bankakerfið væri að hrynja. Hve margir og hvaða stjórnmálamenn skyldu hafa selt hlutabréfin sín í kjölfarið? Við í stjórnum lífeyrissjóða fengum ekkert að vita, að okkur var logið líkt og að almenningi,“ sagði Haraldur H. Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Stafa, á sjóðfélagafundinum.

 

Hann gagnrýndi harkalega eftirlitskerfi fjármálastofnana hér innanlands, erlend matsfyrirtæki, stjórnmálamenn, Seðlabankamenn og fleiri fyrir að hafa leynt ástandinu eða beinlínis sagt ósatt um óbjörgulega stöðu bankakerfisins á árinu 2008.

 

„Í öllum löndum, að hreinum bananalýðveldum kannski undanskildum, er litið á bankabréf sem örugga og verðmæta eign. Íslensk bankabréf reyndust hins vegar einskis virði.  Það vissum við ekki þá en aðrir vissu það, alla vega var þetta rætt á æðstu stöðum hér mörgum mánuðum fyrir hrun. Okkur í Stöfum blöskraði oft hve umfangsmikið og aðfinnslusamt Fjármálaeftirlitið var vegna starfsemi sjóðsins. Margir voru fundirnir og langir.“

 

Töluðu gegn betri vitund

„Fjármálaeftirliðið hafði líka eftirlit með bönkunum og sama gerði Seðlabankinn. Í Peningamálum Seðlabankans fékk bankakerfið heilbrigðisvottorð í júní 2008 en nú er vitað að aðalbankastjórinn sagði ríkisstjórninni frá því í febrúar að kerfið væri að hruni komið! Erlend matsfyrirtæki gáfu íslensku bönkunum ágætis einkunn alveg fram undir hrun.

 

Hvernig áttum við stjórnarmenn í lífeyrissjóðum að sjá í gegnum allt þetta kjaftæði? Mennirnir sem þóttust sjá hrunið fyrir í febrúar horfðu á bankana innan frá og töluðu gegn betri vitund út á við. Hvað sögðu þeir til dæmis í útlöndum um íslensku bankana rétt fyrir hrun? Við horfðum á bankana utan frá, eins og almenningur. Þetta var hreinn blekkingarleikur.“

 

Hér bætti Guðmundur við og sagði frá því að hann hefði ásamt öllum forsvarsmönnum atvinnulífsins setið á löngum fundi í Karphúsinu daginn sem endaði á því að þáverandi forsætisráðherra flutti áhrifamikla ræðu sem hann botnaði með því að biðja Guð um að blessa Ísland. Á þeim fundi komu endurtekið skilaboð frá þáverandi ríkisstjórn að ef lífeyrissjóðirnir myndi losa um 200 milljarða af erlendum eignum sínum og koma með þær heim, væri hægt að leysa yfirvofandi efnahagsvanda og komast hjá hruni bankanna. Eða með öðrum orðum allt fram á síðustu stundu var blekkingum haldið að mönnum.

 

Froða í stað eigna

Haraldur minntist líka á þann leik sem stjórnendur nokkurra umsvifamikilla félaga á fjármagnsmarkaði léku með því að rýra stórlega eignir félaganna án þess að kaupendur skuldabréfa á sömu félög gerðu sér grein fyrir hvað væri að gerast.

 

„Stóru skuldabréfaflokkarnir voru ekki söluvara síðasta árið fyrir hrun, hvað svo sem stóð um þá í ýmsum opinberum skýrslum. Tökum sem dæmi Eimskip og Flugleiðir, fyrirtæki sem áttu á annan tug skipa og flugfélaga þegar við fjárfestum í þeim. Við keyptum skuldabréf af þessum fyrirtækjum til þess að fjárfesta en um leið að styðja við atvinnulífið. Svo kemur FL Group til skjalanna og tekur við ábyrgð á skuldabréfunum en á engar flugfélagar, bara hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum. Félagið seldi sem sagt raunverulegar eignir sínar og setti froðu í staðinn!“

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?