Fréttir frá 2012

01 20. 2012

Kjarasamningar framlengdir

cover rsi-sa_sart-2011

Í dag var skrifað undir samkomulag um að kjarasamningar aðildarsamtaka ASÍ og SA myndu halda gildi sínu og munu laun því hækka um næstu mánaðarmót um 3,5% eða sérstök hækkun á lægstu launatöxtum um 11.000 kr. Þær forsendur sem lágu til grundvallar er líta til kaupmáttar launa, verðbólgu og gengis krónunnar héldu að þessu sinni en ríkisstjórn hefur enn ekki efnt öll þau loforð sem getið er um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Það var því með mikilli gremju sem aðilar ákváðu að framlengja ætti kjarasamninga en mikil áhersla er lögð á að fólk virði gefin loforð og vinni að heilindum við gerð samkomulaga. RSÍ leggur á það mikla áherslu að ríkisstjórn og Alþingi ljúki þeim málum sem getið er um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Mikilvægir þættir eru t.d. að draga úr eigna og tekjutengingu vaxta- og barnabóta, kláruð verði vinna við útboðsmál, komið verði í veg fyrir kennitöluflakk og jöfnun lífeyrisréttinda verði lokið. Það er vinnumarkaðnum mikilvægt að halda þeim stöðugleika sem tekið hefur að mynda á undanförnum mánuðum en verðbólguspá þessa árs gerir ráð fyrir að verðbólga verði komin niður að verðbólguviðmiði Seðlabanka Íslands um næstu áramót. Þar sem laun munu hækka um næstu mánaðarmót hefur verið tryggt að kaupmáttur launa mun samkvæmt spám aukast á þessu ári og í byrjun næsta árs ætti kaupmáttur að hafa aukist á bilinu 2 - 3% frá undirritun kjarasamninga.

Það skiptir þó miklu í þessum áætlunum að hjól atvinnulífsins fari að snúast og aðilar vinni að því að auka framkvæmdir sem skila þjóðarbúinu aukinni arðsemi. Við þurfum á arðbærum verkefnum að halda. Nú er tækifærið til þess að skapa traustan grunn fyrir atvinnulífið, í því samhengi skiptir rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda. Enda skiptir það þjóðfélagið gríðarlega miklu máli að ekki sé hróflað við þeim náttúruperlum sem við viljum halda en jafnframt nýtum þá kosti sem sátt ríkir um að nýta. Sátt mun ekki nást um þetta nema að Alþingi samþykki þau drög sem fagaðilar hafa unnið að síðustu 10 árin. Ef Alþingi hróflar við verndunar eða nýtingarkostum þá verður þar með dregið úr gildi þessarar rammaáætlunar.

 

Aðilar munu halda áfram þeirri vinnu sem enn er í gangi og snýr að því að tryggja eignir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna og þar með okkar félagsmanna. Við teljum að brotið sé á okkar félagsmönnum með þessari skattlagningu og gerum kröfu um að þessu fjármagni verði skilað til baka og lög látin niður falla. Enda er þetta brot á eignaréttar- og jafnræðisákvæðum stjórnarskrár að mati miðstjórnar RSÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?