Fréttir frá 2012

01 19. 2012

Forsendur kjarasamninga

Líkt og komið hefur fram þá hefur verið unnið að mati á forsendum kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Í rafrænu fréttabréfi sem félagsmönnum var sent fyrir skömmu var farið yfir þær forsendur sem lágu til grundvallar að þessu sinni en mikilvægustu forsendurnar sem snúa beint að kjörum fólks héldu að þessu sinni. Þær forsendur sem um ræðir eru þær að kaupmáttur launa þurfti að hafa aukist á viðmiðunartímabilinu desember 2010 til desember 2011, verðlag hafi haldist stöðugt og gengi íslensku krónunnar hafi styrkst.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,5% á umræddu tímabili, sem er ívið meiri aukning en gert var ráð fyrir við gerð samninganna. Þá var farið í ítarlega greiningu á því hvar kaupmáttaraukningin lá, hvort hún væri eingöngu hjá afmörkuðum hópi atvinnulífsins eða hvort hún hefði verið til staðar hjá öllum vinnumarkaðnum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Hagstofa Íslands gefur út þá hefur þessi aukning orðið hjá öllum okkar greinum og ekki er mikill munur á milli atvinnugreina. Samanburður almenna markaðarins við þann opinbera gefur það einnig til kynna að kaupmáttaraukning er sambærileg á þessum mörkuðum á umræddu tímabili.

Verðlag hefur haldist stöðugt á sama tíma en mikið verðbólguskot var í upphafi árs 2011 en hægði verulega á verðbólgunni eftir að skrifað var undir kjarasamningana þann 5. maí síðastliðinn. Þó ber að taka það fram að verðbólga er enn frekar há eða 5,3% í desember mánuði en allar núgildandi hagspár gera ráð fyrir að verðbólgan fari hratt lækkandi á þessu ári og verði í janúar 2013 komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst frá því samningarnir tóku gildi og hefur styrkst um 0,5% ef miðað er við þrönga viðskiptavog líkt og getið er um í kjarasamningunum. Ef hins vegar er horft til Evrunnar þá hefur krónan styrkst enn frekar eða um 2,6%.

Út frá þessu má sjá að við það að laun hækki um næstu mánaðarmót um 3,5% þá hefur kaupmáttur aukist um um það bil 5,5% á samningstímanum að teknu tilliti til verðbólgu. Gera má ráð fyrir að í lok þessa árs verði kaupmáttaraukningin í rúmum 2% en þá skiptir mestu máli hvernig þróun verðbólgu verður á þessum tíma.

Takist stjórnvöldum að koma hindrunum úr vegi framkvæmda á árinu og að hefjist á árinu getur það þó breytt forsendum til bóta fyrir launþega. Mikilvægt er fyrir okkar félagsmenn að unnið verði að grundvelli til jöfnunar lífeyrisréttinda sem draga á úr þeim ójöfnuði sem ríkir á milli þeirra tveggja hópa sem eru á vinnumarkaðnum, almenna og þeim opinbera, við leggjum á það mikla áherslu að jöfnun réttinda verði upp á við að þeim opinbera. Jafnframt er það mikilvægt að unnið verði að því að gera lífeyriskerfin sjálfbær en eins og fram hefur komið á heimasíðu RSÍ þá hallar verulega á ríkissjóð því gríðarlegar skuldbindingar hvíla á ríkissjóði vegna lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna. Vinna verður að því með skynsömum hætti að draga úr þeim skuldum.

Ákveðið var þegar forsendur voru metnar og ríkisstjórn tilkynnt sérstaklega með að við  skattlagningu lífeyrissjóðanna verður ekki unað. Unnið er nú þegar að málshöfðun á hendur ríkinu til þess að fá þessa fjármuni til baka á grundvelli eignarréttar- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sú óeðlilega skattlagning á "hreinni eign til greiðslu lífeyris" bitnar eingöngu á almennu lífeyrissjóðunum og gerir það að verkum að þeir þurfa að öllum líkindum að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga enda er ekki tekið tillit til þeirra skuldbindinga sem hvíla á lífeyrissjóðunum á móti þessari "hreinu eign".

Það hljómar sennilega sérkennilega að "hrein eign til greiðslu lífeyris" sé ekki í raun og veru hrein eign umfram skuldbindingar en samvkæmt lögum ber að skilgreina þetta með þessum hætti í ársreikningum lífeyrissjóðanna. Ef lífeyrissjóður á ekki næga eign til þess að standa undir skuldbindingum sem á honum hvíla þá ber stjórnum að leggja til við ársfund að skerða eigi réttindi eða framtíðarskuldbindingar. Munurinn þarna á milli má að mesta lagi verða -10%, en -15% til bráðabirgða vegna efnahagsástandsins. Verði eignirnar hins vegar of miklar í sjóðunum umfram skuldbindingar þá ber stjórnum sjóðanna hinsvegar að auka réttindi sjóðsfélaga. Lífeyrissjóðir eiga ekki að safna upp óeðlilega miklum eignum umfram þær skuldbindingar sem á þeim hvíla. Þegar vel gengur þá ber þeim að deila hagnaðnum á milli sjóðsfélaganna á hverjum tíma.

Þegar þýðir það að þessi svokallaða hreina eign verður aldrei hrein nettó eign nema til mjög skamms tíma og í mjög litlum mæli. Þar með verður skattlagning sem þessi alltaf íþyngjandi fyrir sjóðsfélagana, og raunar bitnar þetta einna verst á núverandi ellilífeyrisþegum, þeim sem eru að komast á eftirlaun og öryrkjum. Verði þessi skattlagning endurtekin til lengri tíma þá mun það bitna á öllum sjóðsfélögum.

Það er einnig gagnrýnt harkalega að þessi skerðing verður sem sagt eingöngu hjá almennu lífeyrissjóðunum því þeir opinberu eru tryggðir frá atvinnurekanda sem er ríkið og þar með skattgreiðendur allir.

Samstaða náðist sem sagt meðal aðildarfélaga og landssambanda ASÍ um að kjarasamningarnir haldi gildi sínu og unnið verður áfram á þessu ári að ná fram þeim leiðréttingarmálum sem kveðið er á um í kjarasamningunum og yfirlýsingu Ríkisstjórnarinnar sem sett var fram í tengslum við kjarasamningana.

Á morgun föstudag kemur í ljós hver vilji Samtaka atvinnulífsins verður og hvort aðilar nái saman um að kjarasamningar haldi því gildi sínu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?