Fréttir frá 2012

01 4. 2012

Formannafundur ASÍ

Á morgun verður formannafundur ASÍ haldinn, en málefni sem verður fjallað um á fundinum er staða kjarasamninga og farið verður yfir forsendur sem þeir eru byggðir á. Helstu forsendurnar eru þær að kaupmáttur launa þarf að hafa hækkað undanfarið ár, það þýðir að laun þurfa að hafa hækkað meira en verðbólga á sama tímabili. Gengi krónunnar þarf að hafa styrkst á samningstímanum og verðlag þarf að hafa verið stöðugt á sama tíma.
Ýmis önnur ákvæði náðust fram sem aðilar voru sammála um að mikilvægt væri að vinna að og má þar nefna átak sem farið var í í sumar í samstarfi með Ríkisskattsstjóra og fólst verkefnið í því að leiðbeina atvinnurekendum hvernig standa eigi skil á sköttum og gjöldum ásamt því að stöðva og koma í veg fyrir "svarta" starfsemi. Yfirlýsing um lífeyrismál var undirrituð er fjallar um að aðilar skuli á árinu 2012 ljúka viðræðum um það hvernig jafna eigi lífeyrisréttindi á vinnumarkaðnum og felst í því að hækka heildargreiðslur í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 - 2020 til samræmis við greiðslur á opinberum vinnumarkaði. Útfærslan þarf að liggja fyrir á árinu 2012 og mun liggja til grundvallar við endurskoðun kjarasamninganna í janúar 2013.
Áhersla var lögð á að framkvæmd útboðsmála yrði með þeim hætti að allir störfuðu eftir gegnsæjum lögum og eftir skýrum reglum og þá ekki síður þegar verk eru boðin út. Þá er ekkert síður að ríkið starfi eftir þessu lögum og reglum með þeim hætti að ef fyrirtæki standa ekki skil á sköttum og gjöldum þá verði þau ekki gjaldgeng til samkeppni við þau fyrirtæki sem standa skil á sínu. Enda þrífst eðlileg samkeppni ekki í því umhverfi þegar eitt fyrirtæki greiðir ekki sitt og getur þar með boðið lægra í verkið.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnar er meðal annars bent á þörf þess að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum sem geti skilað þjóðarbúinu auknum tekjum. Þar er einnig tekið fram að bætur almannatrygginga skuli hækka með hliðsjón af kjarasamningum, en þar hefur verið deilt um hvort ríkisstjórnin hafi uppfyllt þetta loforð enda eru hækkanir á lágmarkslaunum 11.000 kr. en almenn launahækkun 1.2.2012 er síðan 3,5%. Þar með ættu bætur að hækka með hliðstæðum hætti um 11.000 kr en hækkuðu eingöngu um 3,5%.
Jákvætt er að persónuafsláttur hækkar í samræmi við verðlag á síðasta ári en sú hækkun kemur til framkvæmda á árinu 2012 og verður persónuafslátturinn því 46.532 kr. í stað 44.206 kr. en það er hækkun um tæp 5,3%. Einnig hækka skattþrep frá tæpum 10% á milli skattþreps 1 og 2 en um 3,5% á milli skattþrepa 2 og 3.
Almenn launahækkun sem kemur til framkvæmdar 1.2.2012 ef forsendur halda er 3,5% og síðasta hækkunin kemur síðan ári síðar eða 1.2.2013 ef forsendur halda aftur á þeim tíma.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?