Fréttir frá 2011

04 27. 2011

Ályktun

Drög að Ályktun
Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands leggur til við 17. þing RSÍ sem kemur saman á morgun 28. apríl, að kjaradeilu vegna almenna kjarasamnings sambandsins og kjarasamninga sem eru þeim tengdir verði vísað nú þegar til ríkissáttasemjara.


Miðstjórn telur að þau stéttarfélög sem hafa staðið að gerð þessa samnings stefni sem fyrst á allsherjarverkfall. Stéttarfélögin sýndu mikla ábyrgð í janúar síðastliðnum þegar ákveðið var að gera tilraun til þess að ná þríhliða samning við aðila vinnumarkaðs og stjórnvalda um 3ja ára samning og skapa þar með grundvöll þess að ná atvinnulífinu af stað og endurvinna glataðan kaupmátt. Lögð hefur verið gríðarleg vinna í að gera þennan umfangsmikla samning. Inn í þá vinnu hefur verið gripið reglulega af SA vegna sérdeilu sem LÍÚ á við stjórnvöld.
Rafiðnaðarsambandið er ásamt flestum öðrum stéttarfélögum ekki samningsaðili gagnvart LÍÚ.
Með þessu hátterni hefur LÍÚ komið í veg fyrir að launafólk fái réttmætar launahækkanir og að atvinnulífið nái til baka eðlilegum styrk. Þetta lýsir óbilgirni sérhagsmunahóps sem beitir purkunarlaust fyrir sig almennu launafólki sem býr við skertan kaupmátt, á meðan útgerðarmenn hagnast á slakri stöðu krónunnar. Þeirra hagsmunir eru augljóslega fólgnir í að viðhalda þessari stöðu sem lengst og jafnframt því að verja stöðu sína í veiðiréttindamálum. En um það ríkja ákaflega misjafnar skoðanir meðal fólks og óbilgjarnt að tengja það saman við kjarabaráttu launamanna.

 

Reykjavík 27. apríl 2011

Guðmundur Gunnarsson

Form. samninganefnda Rafiðnaðarsambands Íslands

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?