Fréttir frá 2011

01 22. 2011

Félagsfundur á Selfoss

Á föstudag var haldin félagsfundur á Selfoss. Þar með var búið að halda 4 félagsfundi auk fundar með miðstjórn og samninganefndarmönnum um yfirstandandi við ræður, á fundina hafa mætt um 270 félagsmenn. Í næstu viku eru áætlaðir fundir í Reykjanesbæ, Akranesi og á Sauðárkrók.

Selfoss_fundur_4

Umræðuefnið hefur verið staðan í viðræðum aðila vinnumarkaðs, og fjallað um þá valkosti sem væru í stöðunni. Niðurstaða sunnlenskra rafiðnaðarmanna var sú sama og á hinum fundanna, fundarmenn töldu að ef takast ætti að skapa raunsæa leið til þess að stöðva kyrrstöðuna og búa til viðspyrnu upp á við þyrfti það að gerast í samstarfi allra aðila.

Áberandi var í umræðunni vantrú á því að það tækist að tryggja kaupmátt til langs tíma. Á meðan við hefðum óbreyttan gjaldmiðil sem væri ítrekað nýttur til þess að færa rekstrartap og mistök í efnahagsstjórn yfir á launamenn. Væri litið tilbaka væri erfitt að treysta stjórnmálamönnum hvað varðar efnahagsstjórnun. Stjórnvöld hefðu ítrekað vikið sér undan því að standa við sinn hluta þríhliða samninga og var bent á mörg atriði á undaförnum áratugum. Fram kom að leggja ætti mikla áherslu á að ná fram jöfnun lífeyrisréttinda, það væri óþolandi óréttlæti eins og málum væri fyrirkomið nú.

Fundarmenn gerðu að umfjöllunarefni þá einkennilegu umræðu sem færi fram í fjölmiðlum. Hún endurspeglaði ekki þá umræðu sem færi fram meðal fólks. Heldur einkenndist hún af áróðri stjórnuðum af þeim hagsmunaðilum sem ættu fjölmiðlanna. Einnig var lýst vonbrigðum hversu oft Ríkisútvarpið hefði brugðist í því að koma á framfæri sjónarmiðum launamanna. Sífellt væri tekin viðtöl við upphrópunarmenn og lýðskrumara, en ekki fjallað um faglega vinnu sem fram færi innan stéttarfélaganna og hvaða ástæður lægju að baki þeim ákvörðunum sem meirihluti tæki.

 

Selfoss_fundur_6

Talandi dæmi væri t.d. af ársfundum ASÍ þar hefði verið unnin vönduð kjaramálaályktun og hún samþykkt eftir mikla vinnu í 100 manna nefnd með 98 atkvæðum gegn 2. RÚV tók viðtal við annan þeirra sem var á móti, en birti ekkert um niðurstöðu meirihlutans.

 

Sama væri upp á teningunum núna, endurtekið væri rætt við þá sem væru með niðurrifsumræðu og óraunsæ yfirboð, og þeir oft nefndir þeir sem vildu laga kjör fólks og því haldið fram að aðrir í verkalýðshreyfingunni væru á móti launahækkunum. Þetta væri yfirgengilega heimskuleg umræða. Því er stillt upp þannig að það sé eins og stéttarfélögin semji hvert við annað um laun.

Fundarmenn voru sammála um að það væri ekki hægt annað en að draga þá ályktun að umræðunni væri stjórnað og nýtt til þess að beina sjónum fólks frá aðalatriðum. Þar mætti vísa til þeirrar heiftúðugu hatrömu umræðu sem hefur farið fram undanfarið ár gagnvart lífeyrissjóðum launamanna á almennum vinnumarkaði og stéttarfélögum þeirra.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?