Fréttir frá 2011

12 16. 2011

Verðkönnun ASÍ

ASI_logo

Mikill verðmunur á reyktu kjöti fyrir jólin

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamat í 7 matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Kannað var verð á 72 algengum matvörum sem verða á borðum landsmanna yfir jólahátíðina. Bónus var með lægsta verðið í 42 tilvikum af 72. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið í 35 tilvikum af 72, en Hagkaup var með hæsta verðið í 33 tilvikum. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar í verslunum Hagkaups eða í 69 tilvikum af 72 og í Fjarðarkaupum 68. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Nóatúni eða aðeins 52 af 72 og í Bónus 53. Verslanirnar Víðir og Kostur neituðu þátttöku í könnun verðlagseftirlitsins.


Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á fersku rauðkáli sem var dýrast á 348 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 193 kr./kg. hjá Nettó, verðmunurinn er 155 kr. eða 80%. Mikill verðmunur var einnig á rauðum vínberjum sem voru dýrust á 898 kr./kg. hjá Nóatúni en ódýrust á 524 kr./kg. hjá Nettó verðmunurinn er 374 kr. eða 71%.

Minnstur verðmunur í könnuninni reyndist vera á Hreindýrapaté frá Viðbót, sem var dýrast á 4.989 kr./kg. hjá Nettó, Krónunni, Nóatúni og Hagkaupum en ódýrast á 4.945 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem er 1% verðmunur. Aðeins meiri verðmunur var á frosinni sjávarréttablöndu frá Sælkerafiski, sem var dýrust á 1.785 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrust á 1.694 kr./kg. hjá Krónunni sem er 5% verðmunur.

 

Allt að 37% verðmunur á reyktu kjöti
Af þeirri reyktu kjötvöru sem verðlagseftirlitið skoðaði að þessu sinni var mestur munur á SS hamborgarahrygg með beini sem var ódýrastur á 1.679 kr./kg. hjá Bónus en dýrastur á 2.298 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn er 619 kr. eða 37%. Mikill verðmunur var einnig á úrbeinuðum KEA hangiframparti sem var ódýrastur á 2.298 kr./kg. hjá Bónus og dýrastur á 3.098 kr./kg. hjá Hagkaupum. Verðmunurinn er 800 kr./kg. eða 35%. Frosinn reyktur hátíðarkjúklingur frá Holta var ódýrastur á 898 kr./kg. hjá Bónus en dýrastur á 1.149 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 28% verðmunur.

Af öðrum vörum má t.d. nefna að mikill verðmunur var á fylltum skeljum frá Nóa (280 gr.) sem voru á ódýrastar á 749 kr./st. hjá Bónus en dýrastar á 899 kr./st. hjá Hagkaupum sem er 20% verðmunur. Hvít 600 gr. jólaterta frá Myllunni var ódýrust á 498 kr./st. hjá Bónus en dýrust á 619 kr./st. hjá Nettó sem er 24% verðmunur.

Sjá nánari upplýsingar í töflu.

 

Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu þátttöku í könnuninni

Kannað var verð á 72 matvörum s.s. kjötvörum, mjólkurvörum, kökum, konfekti, drykkjavörum, grænmeti og ávöxtum.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Breiðholti, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum Úrval Hafnarfirði, Hagkaupum Skeifunni og Nóatúni í Nóatúni. Verslunin Kostur og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 


Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?