Fréttir frá 2011

12 23. 2011

Gleðileg jól

Nú er hátíð að ganga í garð og allt lítur út fyrir það að landsmenn allir fái hvít jól. Starfsmenn RSÍ senda félagsmönnum og fjölskyldum þeirra okkar bestu jólakveðjur.

Um síðustu helgi voru samþykkt lög á Alþingi þar sem kemur fram að hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris skuli verða skattlögð. Eins og komið hefur fram á heimasíðu RSÍ þá ályktaði miðstjórn sambandsins um þessa skattlagningu en þar var henni mótmælt harðlega. Við teljum þessa skattlagningu vera brot á Stjórnarskrá Íslands því með þessu er eign sjóðsfélaga skattlögð burt séð frá hvaða skuldbindingar eru á móti þessari eign.

 

Undanfarin ár hefur hrein eign til greiðslu lífeyris verið minni en áfallnar skuldbindingar og því hafa allflestir almennir lífeyrissjóðir þurft að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga. Þessi skattlagning er talin valda því að skerða þurfi lífeyrisréttindi sjóðsfélaga þó það geti orðið misjafnt á milli sjóða og fer það eftir því hver eignastaða sjóðanna er á hverjum tíma og hversu mikið réttindi hafa verið skert undanfarin ár.

 

Bent hefur verið á að opinberu lífeyrissjóðirnir munu ekki þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðsfélaga þar sem þeir sjóðir njóta ríkisábyrgðar. Enda var það ákvæði áréttað með lagabreytingu á Alþingi á sama tíma að leiði tryggingarfræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðsfélaga ásamt mótframlagi launagreiðanda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skuli hækka mótframlag atvinnurekanda til þess að bæta eignastöðu sjóðsins.

 

Með þessu eru Alþingismenn að gulltryggja að þeirra eigin réttindi munu ekki skerðast við þennan auka skatt á eigin lífeyrissjóði en eingöngu sjóðsfélagar almennu lífeyrissjóðanna. Það er að mati formanns klárt brot á jafnræðisákvæði Stjórnarskrár Íslands þegar hópum er mismunað með þetta augljósum hætti. Einnig er gengið á eignarréttar ákvæði Stjórnarskrár Íslands þegar stofn skattlagningar er eign sjóðsfélaga, sem eins og áður sagði mun væntanlega skerða réttindi þess hóps sem er í erfiðustu stöðunni, núverandi ellilífeyrisþegar, öryrkjar og þeir sjóðsfélagar sem munu fara á ellilífeyri á næstu árum.

 

Nú þegar er vinna hafin við þetta mál til þess að vernda réttindi sjóðsfélaga og þar með félagsmanna RSÍ.

 

Nú um áramótin taka einnig í gildi sú breyting á séreignarsparnaði en hingað til hefur launþegum verið heimilt að greiða frá 2% og allt að 4% í séreignarsjóð án þess að tekjuskattur sé greiddur af upphæðinni, sem sagt með sama hætti og lífeyrisgreiðslur í samtryggingarsjóðina, á móti þessum 4% þarf atvinnurekandi að greiða 2% hvort sem launþegi greiðir 2 eða 4%. Eftir áramót verður því sú breyting að þeir sem hafa verið að greiða 4% munu færast niður í 2% séreignarsparnað. Þetta gerist sjálfkrafa og þurfa launþegar því ekki að sækja um lækkun á greiðslu til þess að forðast tvísköttun en vilji menn greiða áfram 4% þá þarf að tilkynna atvinnurekanda það sérstaklega.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?