Fréttir frá 2011

12 9. 2011

Ályktun miðstjórnar RSÍ

Ályktun miðstjórnar RSÍ um skattlagningu lífeyrissjóða

Miðstjórn RSÍ hafnar fortakslaust þeirri aðferðarfræði sem ríkisstjórnin hyggst beita við fjármögnun ríkissjóðs með þeim hætti að skattleggja hreinar eignir samtryggingar lífeyrissjóða. Fjármunir lífeyrissjóða er eign sjóðsfélaga en ekki lífeyrissjóða, þeim ber að ávaxta þá fjármuni sem sjóðsfélagar leggja í sjóðina.

 

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997 er gert ráð fyrir að hrein eign lífeyrissjóðanna verði skattlögð sérstaklega. Með þessu ætlar Alþingi að færa sérgreint sparifé sjóðsfélaga yfir í almannaeigu. Þessi tilfærsla á fjármunum er klárt brot á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en þar segir að eignarrétturinn sé friðhelgur. Með lagasetningu þessari er þar með gengið á rétt þeirra fjölmörgu sjóðsfélaga sem hafa sýnt þá fyrirhyggju að leggja fjármuni til hliðar sem nýta skuli á efri árum.

 

Það er í hrópandi ósamræmi þegar einn og afmarkaður stofn, óháður skuldbindingum, er tekinn til skattlagningar umfram annan því þessi skattlagning jafngildir því að Ríkissjóður myndi taka eignarnámi hlut af fasteignum landsmanna til þess eins að auka verðmæti í Ríkissjóði. Sérstök skattlagning á innistæðum í bönkum yrði seint heimiluð enda sömu forsendur sem liggja þar að baki. Það er öllum ljóst að sú framkvæmd yrði talin fáránleg!
 

Rétt er að benda á óréttlæti sem af þessu hlýst ef horft er til almenna lífeyrissjóðakerfisins á móti því opinbera, því þegar hrein eign almennu lífeyrissjóðanna lækkar á móti áföllnum skuldbindingum og fer undir -15% hlutfall þá ber almennum lífeyrissjóðum að skerða réttindi sinna sjóðsfélaga annað hvort áfallnar skuldbindingar, framtíðarskuldbindingar eða hvoru tveggja. Sem sagt sjóðsfélagar fá lægri fjárhæðir við greiðslu lífeyris.
 

Ef hins vegar er horft til opinberu lífeyrissjóðanna þá gerist slíkt hið sama, áfallnar skuldbindingar verða meiri en eignirnar, en í stað þess að sjóðirnir þurfi að skerða réttindi þá er sá mismunur sóttur í Ríkissjóð Íslands sem bætir sjóðnum upp tapið og sjóðsfélagar halda fullum lífeyri. Þetta leiðir til þess að skuldbinding Ríkissjóðs eykst og skattgreiðendur þurfa að greiða hærri skatta til að vega upp tapið. Því er augljóst mál að mismunun á milli þessara tveggja hópa er algjör!
 

Það verður ekki við það unað að stéttarskipting í landinu fái að þróast áfram með þessum hætti að eingöngu þeir sem greiði í almennu lífeyrissjóðina þurfi í sí og æ að „borga brúsann“, því með þessu breikkar sífellt bilið á milli þeirra sem greiða í almennu sjóðina og þá opinberu.
 

Miðstjórn RSÍ mótmælir þessari aðför að félagsmönnum RSÍ og óskar enn á ný eftir því að jafnræðis verði gætt við alla þá skattlagningu sem stefnt er að og síst af öllu að ganga á Stjórnarskrárvarinn rétt landsmanna. Það verður ekki endalaust tekið af sama hópnum með skattlagningu, þeim hópi sem hefur lökustu kjörin. Leiðin út úr erfiðum efnahagsaðstæðum er ekki með skattpíningu! Leiðin sem er fær og okkur ber að fara er með aukinni atvinnu og verðmætasköpun.
 

Reykjavík, 9.12.11

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?