Fréttir frá 2011

11 24. 2011

Samanburður lánamöguleika

Umræðan í þjóðfélaginu um vaxtakjör og tegund lána er í hámæli þessar vikurnar. Hvort við ættum að vera með verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða eins og við höfðum fyrir hrun Myntkörfulán. Það hefur sýnt sig að myntkörfulán henta Íslendingum mjög illa vegna þeirra gríðarlegu sveiflna sem verða á gengi íslensku krónunnar. Hins vegar þá hefur umræðan um verðtryggð og óverðtryggð lán verið mikil að undanförnu og þá er almennt talað um að við þyrftum að losna við verðtrygginguna. Verkalýðshreyfingin hefur yfirleitt talað fyrir því að verðtryggingin sé nauðsynleg þó eru að sjálfsögðu ekki allir sammála um það.

Ástæða þess að verðtrygging er talin slæm í dag er sérstaklega vegna þess að eignamyndun fólks getur verið mjög lítil og í raun ef um 40 ára lán er að ræða verður eignamyndun mjög hæg fyrstu árin og þá sérstaklega ef um Annuitet lán er að ræða. Það sem dregur ennþá frekar úr eignamyndun er síðan verðbólga þegar lán eru verðtryggð. Gera má ráð fyrir því að höfuðstóll 40 ára verðtryggðs láns, með jöfnum afborgunum og þegar verðbólga er 4%, fari niður fyrir upphaflega lánsupphæð eftir rúm 20 ár. Eðlilega svíður fólki þegar það greiðir af þessum lánum til skamms tíma og horfir á höfuðstólinn hækka. Þess ber þó að geta að nafnvextir verðtryggðra lána eru í dag oft í kringum 4% og því eru raunvextir 4% hærri en verðbólga á hverjum tíma.
Í dag er boðið upp á langtímalán til fasteignakaupa sem eru óverðtryggð á vöxtum sem eru tiltölulega lágir miðað við það sem við höfum almennt átt að venjast. Í einhverjum tilfellum eru óverðtryggðir vextir fastir til ákveðins tíma 3-5 ár en þá eru þeir örlítið hærri eftir því sem tími bindingar lengist. En hvort lánaformið er hagstæðara er erfitt að segja og verður ekki metið hér en það sem mig langar að sýna er hefði þetta staðið til boða fyrir hrun og þá hvernig greiðslan hefði litið út á þeim tíma þegar verðbólga var hvað hæst eða í janúar 2009.
Gefum okkur að við tækjum lán upp á 20.000.000 kr, með jöfnum afborgunum, fjórum mánuðum fyrir þá greiðslu í janúar 2009. Gefum okkur einnig að verðbólga hafi verið 4% alla mánuði fyrir þá greiðslu en verðbólgan færi í 18% þegar fjórða greiðsla af láninu er greidd. Vextir á verðtryggða láninu væru 3,89% fastir vextir og verðtryggða lánið tæki einnig breytingum af verðbólgu (4%). Óverðtryggða lánið bæri vexti sem væru 3,89% yfir verðbólgu samtals fyrir hrun 7,89%. Eftir hrunið: vextir á óverðtryggða láninu sé 21,89% (3,89% ofan á 18% verðbólgu). Vextir á verðtryggða láninu væri hins vera áfram 3,89% með tengingu við vísitölu neysluverðs.
Þegar verðbólga var 4% þá hefði afborgun litið út með þessum hætti, af verðtryggða láninu hefði heildargreiðslan verið 107.156 kr og höfuðstóllinn hefði hækkað um sem nemur 0,33% sem jafngildir 4% ársverðbólgu. En af óverðtryggða láninu hefði heildargreiðslan verið 172.465 kr. Eins og sjá má af þessu fer sú upphæð sem munar (66.025 kr) verðbólgunni beint á höfuðstólinn á verðtryggða láninu á meðan óverðtryggða lánið setur þessa vexti á höfuðstólinn og þar með dreifast þeir yfir lánstímann.
4% verðbólga.







Gjalddagi nr. Ársvextir Ársverðbólga Eftirstöðvar Afborgun Vextir Kostn. Greiðsla
Óverðtryggt lán 4 7,89% 19.875.000 41.667 130.678 120 172.465
Verðtryggt lán 4 3,89% 4% 20.073.746 42.083 65.072 120 107.156
Síðan komum við að þeim tímapunkti þegar verðbólguskotið kemur og varð verðbólgan 18% en vextir af verðtryggða láninu helst óbreytt (3,89%) á meðan vextir á óverðtryggðaláninu hækka í samræmi við verðbólguna og verð 21,89%. Þá sjáum við að heildargreiðslan af verðtryggðaláninu verður 108.405 kr þennan mánuðinn en höfuðstóllinn hækkar hinsvegar um 300.116 kr vegna verðbólgunnar. Ef við horfum síðan á heildargreiðsluna af óverðtryggða láninu þá verður hún 404.340 kr enda breytast vextir í samræmi við vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands með vaxtaálagi frá lánastofnun. Með þessum hætti sést greinilega að í stað þess að leggja vexti ofan á höfuðstól þá greiðast þeir jafnóðum en það veldur hinsvegar gríðarlegum sveiflum í afborgunum og þarf lántaki að hafa svigrúm til þess að greiða þessa vexti vilji hann ekki hafa greiðsludreifingu á vöxtunum (verðtryggingu).

 

18% verðbólga.







Gjalddagi nr. Ársvextir Ársverðbólga Eftirstöðvar Afborgun Vextir Kostn. Greiðsla
Óverðtryggt lán 4 21,89% 19.875.000 41.667 362.553 120 404.340
Verðtryggt lán 4 3,89% 18% 20.307.837 42.574 65.831 120 108.405 


Á meðan vaxtastig á Íslandi er með þessum hætti þá verður það ekki séð að landsmenn geti tekið á móti þeim sveiflum í greiðslubyrði til lengri tíma sem eru að lang mestu leyti tilkomnar sökum óstöðugs gjaldmiðils og lélegrar efnahagsstjórnar. Það hefur verið mat okkar hjá RSÍ að auðveldara sé fyrir okkar félagsmenn að greiða af lánum sínum með tiltölulega jöfnum greiðslum og þar með höfum við haldið þessari stefnu sem hefur oft verið gagnrýnd, en við teljum það vera hagsmuni okkar og okkar félagsmanna að við fáum stöðugleika í hagkerfið og þá er það grunnforsenda þess að gjaldmiðillinn sem við notum sé stöðugur og kostnaður við rekstur gjaldmiðilsins sé lágmarkaður þannig að skattgreiðendur beri ekki þungann af rekstrarkostnaði hans í formi hárra vaxta og skatta.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?