Fréttir frá 2011

10 21. 2011

Vinnumarkaðurinn

Í frétt frá Hagstofu Íslands um atvinnumarkaðinn kemur fram að atvinnulusir séu um 10.700 manns eða 5,9%, þar af er atvinnuleysi á meðal karla 5,6% en 6,2% á meðal kvenna. Þetta þýðir að atvinnulausum fækkar um 1.000 manns og fer úr 6,4% niður í 5,9%. En þó svo atvinnulausum hafi fækkað um 1.000 þá hefur áætlaður mannfjöldi aukist um 1.600 manns en það gerir það að verkum að atvinnuþátttaka hefur minnkað um 0,4% og er 81,0% á þriðja ársfjórðungi 2011.
Ef við skoðum vinnuafl á landinu þá kemur fram að frá árinu 2008 hefur vinnuafli fækkað um 3,2% eða um 6.000 manns þrátt fyrir að nákvæmlega sami mannfjöldi á aldrinum 16-74 ára er á 3. ársfjórðungi 2011 og sama tíma 2008 (225.200 manns). Að auki eru eins og áður sagði 10.700 manns án atvinnu. Þessar tölur sýna það að þrátt fyrir að dragi úr atvinnuleysi þá færist hluti vandans til. Það er staðreynd að enn fjölgar þeim sem eru utan vinnumarkaðar á aldrinum 16 - 54 ára.
Nú er svo komið eins og verkalýðshreyfingin hefur lengi bent á að við þurfum að skapa fleiri störf og koma verðmætasköpun af stað. Við eigum að nýta okkur þá miklu tækniþekkingu sem Íslendingar búa yfir til að efla hátækniiðnað og nýsköpun, viðhalda núverandi atvinnugreinum sem skipta þjóðarbúið miklu máli. Til þess að geta þróað okkur áfram er nauðsynlegt að halda áfram að byggja upp öflugan vinnumarkað með iðn- og tæknimenntuðu fólki. Það er nokkuð ljóst að mikið vantar upp á þessa uppbyggingu.
Það er þó jákvætt að sjá að launavísitalan hefur hækkað um 8,4% síðastliðna 12 mánuði en kaupmáttur launa hefur aukist um 2,6% á sama tíma. En þetta er ein af þeim forsendum sem núverandi kjarasamningar byggja á og snúast um að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum. Það er þó erfitt að segja til um hver þróun verðbólgu og þar af leiðandi kaupmætti launa verður út árið.
Hjá Rafiðnaðarsambandinu er skráð atvinnuleysi rétt innan við 3% og skiptist þannig á milli aðildarfélaganna:

Félag: Fjöldi:
FTR Félag tæknifólks í rafiðnaði 56
RFN Rafvirkjafélag Norðurlands 3
FÍR Félag íslenskra rafvirkja 36
FRV Félag rafeindavirkja 20
FRS Félag rafiðnaðarmanna Suðurlandi 3
RFS Rafiðnaðarfélag Suðurnesja 4
FÍS Félag íslenskra símamanna 14
FSK Félag sýningarmanna v/kvikmyndahús 1
Samtals: 137
KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?