Fréttir frá 2011

10 11. 2011

Skattur á séreignarsparnað

Drög að nýju fjárlagafrumvarpi hafa verið til umræðu undanfarna daga. Þar hefur borið einna hæst umræða um að lækka eigi hámark frádráttarbærra iðgjalda séreignarlífeyrissparnaðar úr 4% í 2%.

 

Þessi aðgerð leiðir til tvísköttunar á séreignarsparnaði umfram 2% og dregur verulega úr hvata til sparnaðar hjá launafólki. Á mannamáli: Þú greiðir tekjuskatt af því sem fer í séreign umfram 2% og greiðir svo aftur tekjuskatt af þeim peningum þegar þú tekur þá út. Þessi breyting gerir það að verkum að það er ekki lengur neinn ávinningur að nýta sér þennan viðbótarsparnað.

 

Þetta skiptir rafiðnaðarmenn meira máli en margar aðrar starfsstéttir þar sem þeir hafa umfram aðra nýtt sér þennan sparnaðarmöguleika. Í umræðu á miðstjórnarfundi ASÍ þann 5. okt. síðastliðinn um fjárlagafrumvarpið (sjá hér: http://www.asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-3052 ) kom fram að launamenn gætu nýtt sér þá leið að semja við launagreiðanda um að allt sem sé umfram 2% inngreiðslu í séreign komi alfarið frá vinnuveitanda. Það eru til heimildir til þess að vinnuveitandi greiði hluta launa í séreignarsparnað, þar er litið til þess hversu hátt þetta þak liggur.

 

Í þessu sambandi má minna á hin gríðarlega umdeildu eftirlaunalög ráðherra og nokkurra útvalinna, einnig má minna á miklar umræður um gagnrýndar aðferðir bankamanna í efri stjórnunarlögunum þegar þeir sömdu um tuga, jafnvel hundruð milljóna inngreiðslur í séreignarsjóði og nýttu sér þar þessi þök sem ráðherrarnir höfðu sett í lög.

 

Hin leiðin sem líklegra er talið að flestir fari, er að launamenn láti einfaldlega lækka inngreiðslur í séreignarsjóði og fái þá peninga frekar greidda í launaumslaginu um mánaðarmót.

 

Nú er að sjá hvort þetta nái í gegnum allar umræður og nefndir hæstvirts Alþingis og að því loknu verða launamenn að taka ákvarðanir hvernig þeir taki út sín laun.

gg

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?