Fréttir frá 2011

09 24. 2011

Afhending sveinsbréfa, september 2011

Í dag fengu nýsveinar í rafvirkjun, rafveituvirkjun og rafeindavirkjun afhent sveinsbréf. Þetta var flottur hópur nýsveina en alltaf eru afhent verðlaun fyrir besta árangur í verklegum þáttum, skriflegum hluta sveinsprófs og síðan samanlagðan árangur. Þetta á við um bæði sveinspróf í rafvirkjun sem og rafeindavirkjun. Að þessu sinni voru það tvær ungar konur, þær Ágústa Ýr Sveinsdóttir rafvirki og Sylvía Dagsdóttir rafeindavirki, sem náðu bestum árangri og ekki bara í einum hluta heldur hrepptu þær öll verðlaunin, þrenn hvor.  Þetta er í fyrsta skipti í sögu rafiðnaðarins sem tvær konur ná bestum árangri í öllum hlutum sveinsprófanna í báðum greinunum á sama tíma.
Þetta sannar það að rafiðngreinar höfða ekkert síður til kvenna en karla og við fögnum því að áhugi kvenna á rafiðngreinum hefur aukist á undanförnum árum. Eins og komið hefur fram í launakönnunum sem Rafiðnaðarsambandið hefur gert undanfarin ár þá hafa rafkonur, þær konur sem hafa sveinbréf í rafiðngreinum, verið með hærri meðalheildarlaun en rafkarlar. Ef laun eru borin saman og tekið mið af sama vinnutíma þá var þessi munur á síðasta ári um 10.2%. Þá er búið að taka tillit til þess að rafkonur unnu að meðaltali 9 klst í yfirvinnu í september mánuði 2010 en rafkarlar unnu þá að meðaltali 21 klst.
Við óskum þeim Ágústu og Sylvíu innilega til hamingju með frábæran árangur. Vonandi verður þetta enn meiri hvatning fyrir ungt fólk að kynna sér hvað rafiðnnám hefur upp á að bjóða fyrir bæði kynin! Á þessum tímum er allt verknám þjóðfélaginu gríðarlega mikilvægt því þjóðfélagið þarf á því að halda að við sköpum verðmæti sem við getum flutt út eða nýtt okkur hér heima með þeim hætti að draga megi úr innflutningi t.d. á orkugjöfum. Það á að leggja mikla áherslu á að auka aðgengi fyrir fólk í verknám í framhaldsskólum landsins.
Við óskum öllum nýsveinum innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga að hafa klárað sveinspróf.
verdl.sveinar_2011_web
Til vinstri Sylvía Dagsdóttir og til hægri Ágústa Ýr Sveinsdóttir

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?