Fréttir frá 2011

09 13. 2011

Ríkisfyrirtæki ohf-vædd

Ríkið hefur á undanförnum árum breytt stofnunum sem tilheyrt hafa ríkinu í opinber hlutafélög, svokölluð ohf félög. Ýmsar vangaveltur hafa sprottið upp í kjölfar þess og menn spyrja sig oft hver ástæðan sé með þeim aðgerðum. Eitt þessara fyrirtækja er t.d. ISAVIA, það tók formlega til starfa 1. maí  2010 en þar var sameinaður rekstur Flugstoða ohf og Keflavíkurflugvallar ohf. Á þeim tíma þegar þessi samruni varð settu félögin sér þá reglu að beiðni Samgönguráðuneytisins, sem nú fellur undir Innanríkisráðuneytið, að allir starfsmenn skuli láta af störfum við 67 ára aldur.

En hvað þýðir það fyrir einstakling sem hefur unnið hjá fyrirtæki í lengri tíma. Einstaklingur sem er orðinn sérhæfður í þeim störfum sem hann hefur sinnt til lengri tíma og hefur gríðarlega þekkingu á því sviði. Honum er sagt upp störfum þegar þrjú ár eru í sjötugt, sem er sá aldur sem flestir ríkisstarfsmenn gera ráð fyrir að starfa til. Viðkomandi þarf þá að takast á við gjörbreytta stöðu í fjárhagsáætlunum þar sem gert hafði verið ráð fyrir tekjum í allt að þrjú ár til viðbótar. Á sama tíma og viðkomandi fær minni tekjur inn á síðustu árunum hefur hann jafnvel enn mikla greiðslubyrði af skuldum sem hann hefur áætlað að ljúka greiðslum af síðustu starfsárin. Hann fær jafnframt talsvert lægri greiðslur úr lífeyrissjóði þar sem lífeyrisgreiðslur miðast við meðal líftíma fólks og því dreifist greiddur lífeyrir á lengri tíma. Sé viðkomandi að greiða í B-deild LSR og fellur undir 95 ára regluna getur munað verulega í ávinnslu réttinda fyrir þessu síðustu ár, eða allt að 13,5% frá 65 ára aldri og til 70 ára aldurs. Sé viðkomandi í almennum lífeyrissjóði getur þetta munað allt að 25% sem viðkomandi fær minna greitt í lífeyri hefji hann töku hans 67 ára í stað 70 ára. Af þessu má greinilega sjá hversu mikilvægt það er fyrir viðkomandi að geta unnið til 70 ára aldurs ef efnahagur viðkomandi er með þeim hætti. Það er nokkuð ljóst að þegar staðan í atvinnumálum er slæm þá telst það mjög ólíklegt að einstaklingur sem orðinn er 67 ára og horfir til þess að fara á eftirlaun innan þriggja ára fái aðra vinnu með sambærilegum launum. Þetta getur valdið því að viðkomandi, sem hafði tiltölulega bjarta framtíð, muni berjast í bökkum að ná endum saman.

Ef horft er á lög og reglur sem gilda í Evrópulöndunum í kringum okkur þá er meðal annars óheimilt að mismuna einstaklingum á grundvelli kyns, þjóðernis og aldurs! Sem sagt þá er ekki heimilt að setja almenna reglu sem bannar ákveðnum hópi að vinna við ákveðin störf eingöngu sökum aldurs. Það er því með ólíkindum að Innanríkisráðuneytið skuli ekki draga tilmæli sín til baka og ætti ráðuneytið að hvetja til þess að starfsmenn og fyrirtæki komi sér saman um eðlileg starfslok starfsmanna þar sem tekið er mið af þörfum fyrirtækisins sem og þörfum starfsmanna.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?