Fréttir frá 2011

06 8. 2011

Áskorun Forseta ASÍ til þingmanna

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins hefur skrifað öllum þingmönnum á Alþingi Íslendinga bréf þar sem hann skorar á þá að hafna framkomnum hugmyndum um skattlagningu á hreina eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris. Gylfi biður þingmenn um að standa vörð um hagsmuni þess launafólks sem býr við lökustu lífeyrisréttindin á Íslandi í stað þess að höggva þar sem síst skyldi.

 

 

Bréf Gylfa er svohljóðandi.

 

Ágæti þingmaður

 

Ég skrifa ykkur þetta bréf vegna tillögu ríkisstjórnarinnar um að leggja sérstakan skatt á áunninn lífeyrisréttindi almennings – skatt sem leggst á hreina eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris. Forysta Alþýðusambandsins hefur ítrekað gert forsætis-, fjármála-, velferðar- og innanríkisráðherrunum grein fyrir afleiðingum slíkrar skattlagningar á lífeyrisréttindi almennings en án árangurs. Eins og þið vafalaust gerið ykkur grein fyrir, eru réttindi þeirra opinberu starfsmanna, sem aðild eiga að LSR eða lífeyrissjóðum bæjarstarfsmanna, tryggð af ríki og sveitarfélögum. Því liggur það í augum uppi að þessi skattlagning lendir einhliða á lífeyrisþegum á almenna markaðnum – félagsmönnum Alþýðusambandsins.

 

Ríkisstjórnin hefur ítrekað bent á að samkomulag hafi náðst í lok síðasta árs um aðkomu m.a. lífeyrissjóða að fjármögnun sérstakra vaxtabóta. Eins og fram kemur í viljayfirlýsingu þessara aðila kom fram vilji til þess að finna leiðir til þess að fjármagna þessa aðgerð – en útilokað er að túlka þessa yfirlýsingu sem svo að slík fjármögnun yrði í formi skattlagningar. Þvert á móti átti ég persónulega a.m.k. tvo fundi með fyrrgreindum ráðherrum þar sem ég gerði þeim grein fyrir því að Alþýðusambandið myndi aldrei samþykkja slíka skattlagningu af þeirri einföldu ástæðu að með henni væru þessar byrðar einhliða lagðar á launafólk á almennum vinnumarkaði. Slíkt væri bæði ósanngjarnt, óréttlátt og algerlega ófyrirgefanlegt!

 

Ég verð að viðurkenna að það kemur mér í opna skjöldu, ef þessi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ætlar að skattleggja elli- og örorkulífeyrisþega til að fjármagna þessa aðgerð – hversu réttlátar sem sérstakara vaxtabætur annars eru. Ennfremur blöskrar mér að skattleggja á þá elli- og örorkulífeyrisþega sem minnst réttindi hafa!

 

Þetta eru jafnframt afar einkennileg vinnubrögð hjá ríkisstjórn sem kennir sig við velferð og hefur nýverið gefið félagsmönnum Alþýðusambandsins – sem telja nærri 110 þúsund manns – fyrirheit um að jafna réttindi þessara lífeyrisþega á almenna vinnumarkaðinum uppávið gagnvart réttindumopinberra starfsmanna.Ég vona að þið þingmenn, sem standið að baki þessari ríkisstjórn, gerið ykkur grein fyrir því að hér er um ótrúlega ögrun að ræða gagnvart Alþýðusambandinu – ögrun sem er alveg klár forsendubrestur gagnvart þeim kjarasamningum sem við undirrituðum í byrjun maí. Samninganefnd ASÍ mun taka endanlega afstöðu til þess, hvort tilefni sé til þess að þriggja ára kjarasamningar öðlist gildi þann 22. júní n.k. og ég vil ekki hér tjá mig um hver niðurstaðan verður.

 

Ég vil hins vegar skora á ykkur að hafna 9. gr. frumvarps fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum og treysti á að þið standið þannig vörð um hagsmuni þorra þess launafólks sem býr við lökustu lífeyrisréttindin í þessu landi.

 

7. júní 2011

 

Gylfi Arnbjörnsson

 

Forseti ASÍ

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?