Fréttir frá 2011

03 14. 2011

Umræður um Ísland í Noregi

Þing norska Rafiðnaðarsambandsins er að ljúka, hefur staðið yfir hér í Osló dagana 10. - 14. marz. Þingið sitja um 270 fulltrúar frá öllum deildum sambandsins, ásamt fjölda gesta frá öllum heimsálfum. Atvinnuleysi og ástand meðal norskra rafiðnaðarmanna er gott og mikið af erlendum rafiðnaðarmönnum hér að störfum.

 

 

Hér er áberandi stolt yfir því hversu vel hefur gengið með norskt samfélag og oft vísað til þess að hér hafi setið stjórn sósíaldemókratar og Noregur sé ríkasta og best rekna samfélagi í heimi. Þeim hafi tekst betur en öðrum að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn fylgi hinni breiðu hraðbraut hægri stefnunnar. Hér hafi hraðatakmarkanir ekki verið fjarlægðar og dregið úr eftirliti í sama mæli og gert var með svo alvarlegum afleiðingum þar sem hægri stjórnir voru við völd.

 

Norskur vinnumarkaður er ákaflega agaður og mikið eftirlit með öllu. Íslensk fyrirtæki hafa verið að reka sig á veggi hér, sama gildir um íslenska rafiðnaðarmenn. Öllum ber saman um að það sem valdi þessu aukna eftirliti hafi verið hvernig fyrirtæki og starfsmannaleigur komu fram við verkafólk frá Austur-Evrópu og rufu venjubundnar leikreglur á vinnumarkaði og rufu um leið eðlilegar samkeppnisreglur.

 

Við þessu var brugðist með sameiginlegu átaki samtaka fyrirtækja og launamanna, sem bitnar þá á norrænum fyrirtækjum sem hingað komi. Reyndar verð ég að viðurkenna að við starfsmenn hjá íslenska Rafiðnaðarsambandinu höfum ásamt hinu norska, því miður orðið að taka á nokkrum íslenskum fyrirtækjum, sem hafa verið að haga sér eins skepnur hér í niðurboðum og hagað sér eins og austur-Evrópu fyrirtækin voru að haga sér heima fyrir Hrun, þannig að þolinmæði gagnvart okkur hér er minni en áður.

 

Á þinginu er mikið rætt um að bæta starfsmenntun og umhverfisvernd, eins og ég hef komið að í fyrri pistlum héðan. Hagræðing í menntakerfinu muni einungis leiða til lakari stöðu á vinnumarkaði og samkeppnisstöðu norskra fyrirtækja. Þau verði að geta keppt við láglaunasvæðin og Noregur eigi að leggja allt kapp á að auka menntunarstöðu vinnumarkaðsins og halda áfram að keppa í efstu deild. Auka eigi fjárfestingar hins opinbera í rannsóknum og á í orkuframleiðslu.

 

Á göngunum fyrir framan fundarherbergin erum við íslendingar endurtekið spurðir um hvernig gangi að koma atvinnulífinu í gang. Norskir rafiðnaðarmenn þekkja vel hvaða orkuframleiðslumöguleika íslendingar hafa, og skilja ekki hvers vegna við séum ekki á fullu að nýta þá til Þess að koma fótunum undir samfélagið.

 

Þegar maður fer að ræða við þá kemur oft fram að menn séu hættir að skilja stefnuleysi okkar og maður skynjar ekki þá samúð sem var hér fyrst eftir Hrun. Þetta virkar á mig eins og norðmenn nenni eiginlega ekki að velta þessum vandamálum íslendinga meira fyrir sér.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?