Fréttir frá 2011

03 11. 2011

Þing norska rafiðnaðarsambnadsins

Nú stendur yfir þing norska rafiðnaðarsambandsins í Osló, 10 - 14. marz. Þingið sitja um 350 manns.

Sambandið stendur ákaflega vel á meðan önnur sambönd horfa upp á fækkun félagsmanna er fjölgun hjá þeim, félagsmenn eru um 37 þús. þar af eru 28 þús. virkir, um 9 þús. eru annað hvort í námi eða eldri félagsmenn sem viðhalda réttindum sínum. Atvinnuleysi er lítið meðal rafiðnaðarmanna í Noregi og töluverður fjöldi erlendra launamanna eru starfandi í Noregi. Um 1.000 rafiðnaðarmenn, flestir frá Svíþjóð. Þeir hafa eins og aðrar þjóðir orðið varir við efnahagskreppuna, en ekki í samsvarandi mæli og t.d. Ísland, engar stökkbreytingar á gjaldmiðli, skuldum heimila og fallandi kaupmætti.

 

Yfirskrift þings norska rafiðnaðarsambandsins er "Orka til breytinga" Hér er vísað til orkusparnaðar og betri nýtingar endurnýjanlegrar orku. Mikið er fjallað um loftslagsbreytingar og hvað sé hægt að gera til þess að minnka óheppilega losun í lofthjúp jarðarinnar. Lönd velmegunnar eins og Noregur eru að nýta of mikið af því sem jörðin getur gefið, umgegni okkar kynslóða hefur haft mikil áhrif á lofthjúp jarðar sem er að valda margskonar breytingum á umhverfinu eins og t.d. veðurfarinu. Athafnir okkar eru að valda því auðlindir munu sumar hverjar tæmast innan ekki margra ára og verð á orku fer hækkandi og mun hækka enn meira á næstu árum. Það mun hafa mikil áhrif á kaupmátt og ráðstöfunartekjur okkar og um leið verða til þess að við verðum að breyta mörgu í lífsháttum okkar.

 

Núverandi kynslóð verður að stefna á aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, vindorku, sólarkorku, orku í straumum hafsins. Norskir launamenn hafna núverandi stöðu þar sem verið sé að selja orku til annarra þjóða á verði sem er lægra en þeim stendur sjálfum til boða. Þeir séu að niðurgreiða orku annarra þjóða. Samfara þessu verður að endurskoða fyrri ákvarðanir hvað varðar vatnsorkuna og dreifikerfin. Fyrir liggur að á næstu árum á að minnka orkunotkun á óendurnýjanlegum orkugjöfum um 20%. Til að ná þessu verður að auka notkun rafbíla gríðarlega auk margra annarra þátta sem leiða til minni orkunotkun, t.d. skipta um lýsingarkerfi og taka út glóperuna. 

 

Vatn er ein verðmætasta auðlindin og norska rafiðnaðarsambandið krefst þess að settar verði mun hertari reglur um uppistöðulón sem geyma ferskt vatn. Sala á orku til annarra þjóða hefur leitt til þess að á mestu orkunýtingartímabilum vetrarins er verið að nýta of mikið af uppistöðulónunum á þeim tíma, sem veldur því að þau standa nú orðið stundum í hættulega lágri stöðu þegar líður á sumarið. Við þessu verður að bregðast. Þetta hefur einnig mikil áhrif á náttúruna og aðrar vatnsmiðlanir.

 

Einkavæðing orkufyrirtækja og dreifikerfa hefur leitt til þess að rekstraröryggi hefur minnkað mikið. Arðsemiskröfur fjárfesta hafa leitt til þess að endurnýjun og uppbygging dreifikerfa hefur ekki verið nægileg og það er að koma fram núna. Viðhaldsflokkum hefur verið fækkað og nú séu orkunotendur í dreifðum byggðum að upplifa það oftar að dreifikerfin falli út og oft á tíðum í langan tíma. Norska rafiðnaðarsambandið gekk langt í gagnrýni sinni á einkavæðingu í raforkukerfinu árin upp úr 1990 og nú eru að koma fram að þeir höfðu rétt fyrir sér. (Hér má minna á nákvæmlega sömu gagnrýni RSÍ á sínum tíma.)

 

Umræðan um eignarhald á norskum orkufyrirtækjum hefur verið mikil og með vaxandi hörku. Norska rafiðnaðarsambandið hefur verið virkur þátttakandi í þeirri um ræðu og verið ákafur andstæðingur einkavæðingar orkufyrirtækjanna og haft betur í þeirri baráttu, en þeirri baráttu er ekki lokið. En staðan nú ætti að gera sambandinu auðveldara að fá almenning með sér, það gerir slakur árangur einkalaðila í rekstri og við blasir að gríðarleg verðmæti eru fólgin í endurnýjanlegum orkugjöfum og núverandi kynslóð hefur ekki heimild til þess að taka þann arð frá komandi kynslóðum og selja hann á hrakvirði til einkaaðila.

 

Norska rafiðnaðarsambandið vill berjast fyrir öflugri almennings flutningskerfum, með strætisvögnum knúnum rafmagni, rafmagnslestum, rafbílar, fjarhitunarkerfi og betri nýtingu orkunnar. Á þinginu var umfangsmikil kynning á rafbílum, þeir kosta í dag svipað og bensínbílar, reksturskostnaður er ákaflega lítill, félagsmönnum er boðið upp á eins árs frí kort að hleðslustöðvum, ríkið hefur fellt alla þungaskatta af þessum bílum og margir eru farnir að líta til þessara bíla sem annan bíl heimilisins.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?