Fréttir frá 2011

03 9. 2011

Kennitöluflakk

Ég hef fengið nokkrar spurningar um grein mína um þann þátt kjarasamninga þar sem aðilar vinnumarkaðs vilja sporna gegn kennitöluflakki.

 Málið snýst um að aðili útvegar sér nýja kennitölu, flytur eignir eða verðmæti eldri kennitölu yfir á glænýja og kemur sér með því undan ábyrgð á rekstri.

 

Séu skoðaðar skýrslur skattsvikanefndar kemur í ljós að gjaldþotaslóð einstakra athafnamanna hefur færst í aukana á undanförnum árum. Það er fyrst með skýrslu skattsvikanefndar frá árinu 2003 sem fjallað er um þetta mál og er það rakið til gífurlegrar fjölgunar einkahlutafélaga frá því að lög um einkahlutafélög tóku gildi í upphafi ársins 1995.

 

Tjón ríkissjóðs, birgja og launamanna af rekstri sem stofnað hefur verið til gagngert til að komast undan sköttum og skyldum í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar er gríðarlegt. Hér er um að ræða vanskil á vörslusköttum, vangreiðslu opinberra gjalda, ábyrgð á launum vegna gjaldþrota, vanskil á launatengdum gjöldum. T.d. gjöldum vegna iðgjalda til lífeyrissjóða , áunnum réttindum launamanna eins og veikindadaga og orlofs og réttinda í sjóðum og tryggingum.

 

Margir hafa bent á að bankar og starfsmenn banka séu umsvifamiklir á þessu sviði. Bankarnir flytja eignir, lager og verkefni yfir á nýjar kennitölur ásamt skuldum viðkomandi fyrirtækis við viðkomandi banka og ver þannig sína stöðu, en bankarnir láta síðan eldri kennitöluna fara í gjaldþrot með öðrum skuldum, sköttum og launakostnaði.

 

Þrátt fyrir fjölda dóma á umliðnum áratug vegna vanskila á vörslusköttum samfara bókhaldsbrotum, hefur ekki dregið úr kennitöluflakki og þekktir eru nokkrir með slóð gjaldþrota, þar sem launamenn, hið opinbera og viðskiptavinir hafa setið uppi með mikinn skaða.

 

Mörg nágrannalönd hafa tekið markvisst á þessu, en einhverra hluta vegna þá sitjum við í þessari súpu og það er sameiginlegur áhugi launamanna, samtaka fyrirtækja og ríkisskattstjóra að taka á þessu vandamáli.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?