Fréttir frá 2011

03 5. 2011

Kjaraviðræður

Umfangsmikil vinna stendur yfir í starfsnefndum vegna kjarasamninganna.

 

Undanfarna daga hafa viðræður í vinnunefndum snúist um veikindarétt og kostnað vegna læknisvottorða, komugjöldum og sérfræðingakostnað þegar vinnuveitandi fer fram á vottorð frá þessum aðilum, en þessi gjöld hafa snarhækkað. Deilur eru um tryggingar vegna ferða til og frá vinnustaðar. Einnig er rætt um kröfu um að víkka út rétt til launaðra fjarvista vegna veikinda heimilismanna. Miklar deilur eru um útfærslur á yfirvinnuálagi vegna fyrstu 40 tíma í viku, kröfur eru frá fyrirtækjum um að vinnuveitandi geti nýtt sér 40 tímana þó svo þeir falli utan skilgreinds dagvinnutíma án þess að greiða fullt yfirvinnuálag.

 

Umfangsmiklar umræður eru um jöfnun lífeyrisréttinda. Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna.

 

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa.

 

Kröfur eru um að tekið verði með myndarlegum hætti á kennitöluflakk, svartri atvinnustarfsemi og ábyrgð á tilboðum undirverktaka. Kröfur iðnaðarmannafélaganna eru í fullu  samræmi við kröfur ríkisskattstjóra og harla einkennilegt að stjórnvöld taki ekki á þessum málum. Því miður er það svo að við heyrum ræður á Alþingi þar sem þetta ástand er varið sem frelsi til athafna. Bankar, lögmenn og sumir embættismenn virðast vilja viðhalda núverandi ástandi jafnvel þó við öllum blasti sá veruleiki að verið væri að spila á kerfið.

 

Nágrannalönd okkar eru búin að taka á þessum málum en Ísland er langt á eftir. Þetta frelsi til athafna felst í frelsi til þess að níðast á réttindum launamanna, svíkja undan sköttum og koma kostnaði á ábyrgðarsjóð launa, eða með öðrum orðum á skattborgarana. Gott dæmi kom fram í fréttum sjónvarps í vikunni. Þar stóð einn þekktur kennitöluflakkari og sagði borubrattur að engin hefði nokkru sinni tapað einni krónu á sínum 23 gjaldþrotum. En hvað með launatengdu gjöldin spurði fréttmaður og fékk svar „Nú þar tapaði engin neinu Ábyrgðarsjóður launa greiddi það allt."

 

Sá veruleiki er að birtast þessa dagana samningamönnum að stjórnvöld eru að mæta algjörlega óundirbúin til leiks, þó svo að þau væru búinn að vera með allar kröfur frá miðjum janúar. Öllum á að vera ljóst að ekki verða gerðir langtímasamning án þess stefnt verði að traustri efnahagsstjórn. Gríðarlegar mótsagnir eru ræðum ráðherra um hvernig stjórnvöld ætla að koma atvinnulífinu af stað.

 

Þeir tala um mikil og orkufrek fyrirtæki og sölu á orku til útlanda, en þegar kemur að umræðum um hvar eigi virkja þá snýst allt við. Orkugetu þeirra virkjana sem þeir ætla að hleypa af stað nægir einvörðungu fyrir um fjórðung af þeirri orku sem þyrfti til þess að koma Helguvík af stað. Það væri ekki sérstakt keppikefli stéttarfélaganna að fá álver, en það er krafa um að stjórnvöld geri alvöruáætlanir um hvað ætti að gera. T.d. er Helguvík inn í öllum hagstjórnarmódelum stjórnvalda, en útilokað að sjá hvernig fara eigi að því að ljúka þeim framkvæmdum.

 

Lítið hefur verið rætt um launalið samninganna, það eru ákaflega skiptar skoðanir um svokallað krónutöluleið og prósentuhækkanir. Sá kostnaðarauki sem SA hefði nefnt er langt frá þeim væntingum sem samningamenn stéttarfélaganna hafa. Eftir helgina ætti að taka til við launaviðræður og menn væri með inn í sínum vinnuplönum að ljúka launaviðræðum um miðjan marz.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?