Fréttir frá 2011

02 17. 2011

Samstaða stéttarfélaganna

Öll aðildarfélög ASÍ, BSRB, KÍ og BHM, utan tveggja tiltölulega lítilla stéttarfélaga í Starfsgreinasambandinu hafa samþykkt að kanna til hlítar hvort hin svokallaða kaupmáttarleið sé fær.

Rjúfa verði þá kyrrstöðu sem hefur ríkt hér í efnahagslífinu. Það verði ekki gert nema með því að tryggja stöðugleika til einhvers tíma og fá fyrirtæki og fólk til þess að fjárfesta. Auka atvinnu og útflutning. Einungis ein leið sé fær úr þessum vanda, þjóðin vinni sig út úr vandanum.

 

Atvinnuleysi hefur verið mikið eftir Hrun, eða í grenndinni við 10%, þar til viðbótar hafa um 5.000 manns horfið að af vinnumarkaði, flutt sig erlendis eða farið til náms. Landsframleiðslan hefur dregist saman. Þetta gerðist ekki í nágrannalöndum okkar.

 

Kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkað og  einkaneyslan dregist saman um fjórðung af þeim sökum. Haustið 2008 hvarf á einni nóttu sá kaupmáttarauki sem verkafólk hafði áunnið sér með kjarabaráttu næstliðinna 5 ára, því til viðbótar tóku skuldir heimilanna stökkbreytingu. Þetta gerðist ekki í nágrannalöndum okkar.

 

Stjórnvöld hafa reynt að verja velferðarkerfið og eina leiðin að þeirra mati hefur verið að auka skatta, sem leiðir til enn meiri samdráttar. Við erum í vítahring, spíral niður á við. Ísland er að dragast aftur úr á flestum sviðum sé litið til nágrannaþjóða okkar. Ungt velmenntað fólk er flytja héðan. Það er í góðir vinnu hér, en er með eftirsótta menntun, en kýs frekar að búa í því umhverfi sem til boða stendur á hinum Norðurlandanna.

 

Öll stéttarfélögin hafa fundað margsinnis um þá tvo valkosti sem í boði eru, skammtímasamning, eða langtímasamninga. Skammtímasamningar kalla á ákaflega mismunandi samninga áframhaldandi óvissu, óbreyttri stöðu, líkum á hækkandi verðbólgu og vöxtum. Áframhaldi niðursveiflunnar og enn meiri kaupmáttarrýrnun. Þeir hópar sem eru í bestu stöðunni gætu hugsanlega náð til sín launahækkunum, á meðan stóru hóparnir sem eru í slakri stöðu á vinnumarkaði og búa við mesta atvinnuleysið, næðu að öllum líkindum ekki kjarabótum. Tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins hafa klofið sig frá hinum og valið þessa leið.

 

Hin stéttarfélögin með um 95% félagsmanna ASÍ hafa ásamt BSRB, KÍ og BHM valið að snúa bökum saman og geri tilraun til þess að ná  langtímasamning. Langtímakjarasamningur verður að vera verðtryggður með einhverjum hætti, (oft kallað rauð strik á samningamáli). Það er ekki framkvæmanlegt nema með þríhliða samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðs, vegna hins óstöðuga gjaldmiðils.

 

Öll stéttarfélögin utan tveggja eru þessa dagana að láta á það reyna til hlítar hvort þessi leið sé fær. Það er ekki starfsfólk ASÍ og forseti sambandsins, sem taka ákvörðun um að fara þessa leið svo hann fái sérstaka launahækkun, eins og haldið er fram í fjölmiðlum. Það er reyndar mesta lágkúra sem sést hefur í umfjöllun um kjaramál fyrr og síðar. Samningsrétturinn liggur ekki hjá ASÍ, hann er hjá hverju stéttarfélagi. Það voru félagsfundir í hinum 60 aðildarfélögum ASÍ með stjórnum og trúnaðarráðum sem ákváðu að fylgja þessari leið, en tvo stéttarfélög berjast gegn því.

 

Vitanlega er hverju stéttarfélagi heimilt að ákvarða hvaða kjarastefnu fylgt er, en það er aftur á móti einkennilegt ef forsvarsmenn þeirra telji sig vinna að bættum kjörum með því að mæta í fjölmiðla og úthúða öllum sem ekki eru þeim sammála. Persónulegt níð og skítkast hækkar ekki laun láglaunafólks.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?